Biden leitar stuðnings verkalýðsfélaga

Joe Biden hefur framboð sitt formlega í dag með því …
Joe Biden hefur framboð sitt formlega í dag með því að funda með liðsmönnum nokkurra helstu verkalýðssamtaka landsins. AFP

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hleypir forsetaframboði sínu af stokkunum í dag á fundi með liðsmönnum helstu verkalýðssamtaka landsins og segir Reuters-fréttaveitan stuðning þeirra kunna að reynast honum nauðsynlegur í slagnum um forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins.

Biden greindi frá því í síðustu viku að hann myndi gefa kost á sér og segir Reuters hann munu reiða sig á stuðning verkamanna. Þrátt fyrir langvarandi tengsl hans við verkalýðsfélögin á hann engu að síður á brattan að sækja þar sem 20 frambjóðendur hafa nú gefið kost á sér fyrir hönd Demókrataflokksins og fer því fjarri að Biden sé einn um að óska eftir stuðningi verkafólks.

Þannig voru sex frambjóðendur flokksins að ræða við formenn verkalýðssamtaka á fundi í Las Vegas á laugardag og hétu þeim m.a. stuðningi við kröfu um 1.800 kr. lágmarkslaun.

„Þetta kann að vera stærsti hópur frambjóðenda sem er hlynntur verkalýðsfélögum sem við höfum séð í áratugi og það gerir það erfiðara fyrir einhvern einn frambjóðanda að tryggja sér stuðning verkalýðsfélaganna,“ segir Steve Rosenthal, sem ráðleggur verkalýðsfélögum um stefnu sína fyrir forsetakosningarnar 2020.

Hafa verkalýðsfélög raunar sum hver gefið til kynna að með svo marga frambjóðendur í boði þá eigi þau kost á að velja þá frambjóðendur sem sinna þeirra stefnumálum sérstaklega.

Biden hefur lengi skilgreint sjálfan sig sem málsvara verkamanna, en eftir að hafa setið á þingi sem öldungadeildarþingmaður og verið varaforseti Barack Obama í tvö kjörtímabil, kunna sumir að telja bilið milli hans og almennings vera orðið of breitt.

Þá studdi Biden gerð NAFTA-viðskiptasamnings Ameríkuríkjanna sem mörg verkalýðsfélaganna eru allt annað en sátt við og telja eina ástæðu þess að störf hafa farið úr landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert