Krútt eða kvikindi: Hví elskum við sum dýr?

Kínverski pandabjörninn hefur síðustu áratugi fangað hug og hjörtu jarðarbúa. …
Kínverski pandabjörninn hefur síðustu áratugi fangað hug og hjörtu jarðarbúa. Hann er krúttlegur mjög og hagar sér oft í líkingu við menn. Það gerir það að verkum að væntumþykja vaknar í brjósti mannfólks við að fylgjast með honum. AFP

Kínverska risasalamandran, stærsta froskdýr heims, er ekki krúttleg. Hún vegur álíka mikið og fullorðinn maður, er með brúna slímuga húð, stóran munn sem um virðist leika skakkt glott og smá augu sem úr skín tortryggni.

Hún er líka sú dýrategund veraldar sem er í hvað mestri útrýmingarhættu. Þrátt fyrir það, ólíkt samlanda sínum risapöndunni, kemst hún sárasjaldan í fréttirnar.

Hvers vegna snerta sum dýr strengi í hjörtum fólks, svo það gefur milljónir á milljónir ofan þeim til verndar, á meðan önnur virðast litlar tilfinningar vekja nema þá helst viðbjóð? 

Og er mikilvægara að bjarga risapöndunni, með sín sorgmæddu augu, frekar en hinni slímugu salamöndru?

Kínverska risasalamandran er að margra mati ófrýnileg. Hún getur orðið …
Kínverska risasalamandran er að margra mati ófrýnileg. Hún getur orðið 1,8 metrar að lengd og um sjötíu kíló. Hún er í útrýmingarhættu. AFP

Stærð, greind, hegðun, fágæti, hversu mikið þau líkjast mönnum í útliti og hegðun skiptir allt miklu máli um hver viðbrögð mannfólksins eru gagnvart dýrum í útrýmingarhættu.

„Einn stærsti þátturinn er [hvort dýrið sé] krúttlegt; útlitseiginleikar á borð við stór augu og mjúkar línur sem kveikja móður- og föðurlegar tilfinningar því þau minna okkur á mannabörn,“ segir Hal Herzog, prófessor í sálfræði við háskólann í Vestur-Karólínu. Herzog er sérfræðingur í tengslum manna og dýra og segir að dökku hringirnir í kringum augu pandabjarna veki þegar í stað umhyggju í hugum manna. „Berðu þetta saman við kínversku risasalamöndruna,“ segir hann. „Googlaðu hana. Hún líkist tæplega tveggja metra löngum og 70 kílóa þungum poka af brúnu slími með lítil stingandi augu.“

Geimveran í Alien var látin líta þannig út að sem …
Geimveran í Alien var látin líta þannig út að sem flestir myndu fyllast viðbjóði.

Salamöndrurnar spila nauðsynlegt hlutverk í vistkerfi sínu, rétt eins og ormar eru nauðsynlegir fyrir heilbrigði jarðvegs. Samt sem áður vekja þær, líkt og maðkar, rottur og snákar, aðallega viðbjóð hjá mönnum.

 Lærður viðbjóður

Samkvæmt því sem Graham Davey, sérfræðingur í fælni hjá Sussex-háskóla, segir þá lærum við að leggja fæð á ákveðnar lífverur mjög snemma á lífsleiðinni. „Andstyggð er lærð tilfinning. Börn fæðast ekki með hana. Hún smitast líklega félagslega, menningarlega og innan fjölskyldna,“ segir hann. 

Fólki finnst tígrisdýr falleg og fæstir fá óttahroll við að …
Fólki finnst tígrisdýr falleg og fæstir fá óttahroll við að horfa á þau. Samt eru þau í raun hættuleg. Þarna leikur fallegi feldurinn hlutverk. AFP

Sum dýr gjalda fyrir að minna á hluti sem þykja ógeðslegir, s.s. slím og saur, að sögn Daveys, á meðan önnur eru dæmd, réttilega eða ranglega, fyrir að vera hættuleg mönnum. „En hvað ógn við mannkynið snertir þá stafar mun meiri hætta frá sjúkdómum en árásum villtra dýra.“

Þetta getur skýrt það af hverju fæstum okkar þykja ljón og birnir ógeðsleg. Þessar skepnur eru með mjúkan feld rétt eins og bangsar barna, þó að staðreyndin sé sú að það margborgi sig að halda sig í fjarlægð frá þeim í raunveruleikanum.

Flest stóru, villtu spendýrin eru í hættu. Þrengt er að …
Flest stóru, villtu spendýrin eru í hættu. Þrengt er að búsvæðum þeirra og veiðiþjófnaður tekur sinn toll úr stofnum þeirra. AFP

Og eins og með svo margt annað þá hefur dægurmenning áhrif á það hvernig samfélög manna upplifa dýr. Á meðan kvikmyndin Free Willy vakti samúðaröldu með háhyrningum þá gerði hryllingsmyndin Arachnophobia ekkert til að bæta ímynd köngulóa.

Ókindin, Jaws, er svo eitt besta dæmið um hvernig andúð var vakin á ákveðinni dýrategund, í því tilviki hákörlum.

Jafnvel skáldaðar skepnur, eins og aðal-„lífveran“ í Alien-kvikmyndinni, geta haft mikil áhrif á hvernig fólk upplifir ákveðnar (raunverulegar) lífverur. 

Sum dýr þykja sniðugri og krúttlegri en önnur. Myndir af …
Sum dýr þykja sniðugri og krúttlegri en önnur. Myndir af fílum má sjá víða og það gæti blekkt fólk og það haldið að af fílum sé nóg í náttúrunni. Svo er ekki, þeim fer fækkandi á flestum svæðum. AFP

„Að sjá þessa sem var í fyrstu kvikmyndinni, sem var með slím lekandi út úr munninum, gerði út á viðbjóð fólks á ákveðnum hlutum,“ segir Davey.

Það er ekki aðeins almannaálitið sem mótar skoðanir okkar og verður til þess að sumar dýrategundir eru fordæmdar en aðrar elskaðar. Niðurstaða rannsóknar sem var gerð árið 2017 var sú að það væri sterk fylgni milli þeirra dýra sem samfélög vilja fremur og þeirra sem vísindamenn beina sjónum sínum mest að í rannsóknum sínum. 

„Kannski er það af því að það er auðveldara að fá styrki til að rannsaka þekkt dýr,“ segir  Frederic Legendre, vísindamaður við franska Sögusafnið. Og vinsælar dýrategundir skapa einnig tekjur, að því er Christo Fabricius, sem starfar fyrir Alþjóðadýraverndunarsjóðinn, WWF, segir. Sjóðurinn er m.a. þekktur fyrir vörumerki sitt af pandabirni. „Skriðdýr til dæmis eru ekki mjög markaðsvæn.“

Hryllingsmynd um kóngulær gerði út á að hræða fólk og …
Hryllingsmynd um kóngulær gerði út á að hræða fólk og vekja viðbjóð gagnvart dýrategund sem er sannarlega nauðsynleg öllu lífi á jörðinni. Skjáskot úr kvikmyndinni Arachnophobia

Það er þó ekki þannig að það sé endilega slæmt út frá verndunarsjónarmiðum að fólki finnist ákveðin dýr krúttleg. „Þegar við verndum þekktar tegundir, þá verndum við búsvæði þeirra og allar aðrar lífverur innan þess njóta góðs af,“ segir Legendre.

En sumar tegundir geta orðið fórnarlömb eigin vinsælda. Í einni nýlegri rannsókn kom í ljós að sýnileiki villtra dýra á borð við fíla og tígrisdýr, hvort heldur sem er sem veggfóður á tölvuskjáum, á stuttermabolum eða í barnabókum, getur verið blekkjandi svo að fólk heldur að þau séu algengari í hinni villtu náttúru en þau raunverulega eru.

Staðreyndin er hins vegar sú að stofnar flestra stórra, villtra spendýra, allt frá flóðhestum til gíraffa og górilla, fara minnkandi.

Flestum finnast ljón tilkomumikil og falleg.
Flestum finnast ljón tilkomumikil og falleg. AFP

Svo er það hættan á veiðiþjófnaði. Því fágætari sem tegundin er þeim mun meira virði er hún á svörtum markaði og þeim mun meiri verður eftirspurnin, að því er Frank Courchamp, vistfræðingur við frönsku náttúrufræðistofnunina, segir. 

Svo næst þegar þú sérð mynd af kínversku risasalamöndrunni, mundu þá að ekki er allt sem sýnist þegar kemur að því að bjarga lífríki jarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert