26 létust úr ebólu á einum degi

Heilbrigðisstarfsmenn að störfum í sjúkratjaldi í Austur-Kongó.
Heilbrigðisstarfsmenn að störfum í sjúkratjaldi í Austur-Kongó. AFP

26 létust úr ebólu á einum degi í Kivu-héraði í Austur-Kongó. Ekki hafa áður svo margir látist á jafn stuttum tíma úr veirusýkingunni frá því að faraldur braust út í landinu fyrir níu mánuðum, að því er heilbrigðisráðuneytið greinir frá.

Um annan mannskæðasta ebólufaraldur frá upphafi er að ræða. Sá versti geisaði í Vestur-Afríku á árunum 2014-2016. Í honum létust yfir 11.300 manns. Í faraldrinum í Austur-Kongó er talið að 957 hafi látist úr ebólu, þar af 33 heilbrigðisstarfsmenn. 

Í ágúst á síðasta ári tilkynntu stjórnvöld í Austur-Kongó um tíunda faraldur ebólu í fjörutíu ár. Fyrst varð sýkingarinnar vart í héraðinu Norður-Kivu en veiran barst svo fljótlega til Ituri-héraðs.

Það er ekki einfalt mál að berjast gegn útbreiðslu faraldursins á þessum slóðum. Fyrir utan það hversu hættulegur hann er, og að engin lækning er til við honum, þá þurfa heilbrigðisstarfsmenn að berjast við vopnaða hópa skæruliða sem og hermenn stjórnarhersins sem miklu ráða á svæðinu og lenda stöðugt í átökum. Læknir frá Kamerún var til dæmis skotinn til bana þann 19. apríl. „Við látum ekki hóta okkur, við munum klára okkar vinnu,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO. „Ykkar öryggi er okkar forgangsmál. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að vernda ykkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert