Söguleg afsögn Japanskeisara

Akihito Japanskeisari flytur hér ræðu sína við einn hluta afsagnarathafnarinnar.
Akihito Japanskeisari flytur hér ræðu sína við einn hluta afsagnarathafnarinnar. AFP

Akihito Japanskeisari segir af sér embætti í dag með mikilli viðhöfn, en þetta er í fyrsta skipti í meira en 200 ár sem Japanskeisari segir af sér. Viðburðurinn þykir því sögulegur og hefur verið sent út frá ýmsum helgiathöfnum í beinni útsendingu, enda er þetta í fyrsta skipti sem almenningi gefst færi á að fylgjast með afsögn keisara.

Keisarinn hefur nú þegar framkvæmt mikilvægustu helgisiðina sem gerir honum kleift að láta keisaradæmið og Tryggðarblómahásætið í hendur Naruhito, sonar síns sem verður vígður í embætti á morgun. Tæknilega séð mun Akihito vera keisari þar til klukkan slær miðnætti, en þá mun Reiwa keisaratíðin, sem útleggja má sem „fagur samhljómur“, taka við af Heisei keisaratíð Akhitos og verður Naruhito þar með 126. keisari Japan.

Í stuttri ræðu sem keisarinn hélt við eina athöfnina kvaðst hann hafa sinnt skyldum sínum síðast liðinn 30 ár með „djúpri virðingu og ást á japönsku þjóðinni“. „Það hefur verið mikil blessun,“ bætti Akihito svo við. Því næst þakkaði hann japönsku þjóðinni „innilega fyrir að samþykkja mig sem þjóðhöfðingja og veita mér stuðning.“

Japanir létu úrhellisringingu ekki stöðva sig í að koma saman …
Japanir létu úrhellisringingu ekki stöðva sig í að koma saman framan við keisarahöllina við afsögn Akihito, enda nýtur hann mikilla vinsælda hjá almenningi í landinu. AFP

Við viðhöfn sem haldin var í hinu íburðarmikla „Furuherbergi“ í keisarahöllinni í Tókýó afhenti Akihito fornt sverð og helga skartgripi sem taldir eru réttmæt eign keisarans á hverjum tíma. Því næst þakkaði forsætisráðherrann, Shinzo Abe, Akihito sem hefur verið keisari Japan frá árinu 1989 og sagði hann hann hafa sinnt skyldum sínum sem tákn Japan. Þá sagði hann keisarahjónin, sem í gegnum tíðina hafa verið iðin við að heimsækja fórnarlömb hamfarasvæða og veita þeim huggun, hafa veitt japönsku þjóðinni „hugrekki og von“.

Akihito, sem nú er 85 ára, viðraði máls á því árið 2016 að heilsa hans gerði honum mögulega ekki kleift að sinna starfinu líkt og þörf væri á. Japanska þingið lét í kjölfarið gera lagabreytingar sem gerði hinum aldraða keisara kleift að láta af embætti, en skoðanakannanir hafa sýnt að almenningur hafði almennt skilning á ósk hans að láta af störfum.

mbl.is