Vopn í hendur kennara

AFP

Fulltrúadeild þingsins í Flórída samþykkti í gær frumvarp til laga um að kennarar megi vera vopnaðir skotvopnum við kennslu. Áður hafði frumvarpið verið samþykkt í öldungadeild þingsins. Það er nú í höndum ríkisstjóra Flórída, repúblikanans Ron DeSantis, að skrifa undir lögin.

Með lögunum vilja þingmenn koma í veg fyrir fjöldamorð eins og í Parkland-menntaskólanum í Flórída í febrúar í fyrra. 17 létust í árásinni. Stuðningsmenn þess að kennarar fái að ganga með skotvopn á skólasvæðinu eftir að hafa lokið 144 tíma þjálfun við vopnaburð, segja að vopnaðir kennarar geti bjargað mannslífum. 

Andstæðingar frumvarpsins vara hins vegar við hættunni á slysaskotum og mistökum sem geti kostað mannlíf. Telja þeir réttara að koma í veg fyrir að skotvopn komist í hendur þeirra sem ekki kunna eða eiga að fara með vopn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert