Hver drap börnin í Atlanta?

Skjáskot úr Atlanta Child Murders

Skjöl og myndir út um allt, handskrifaður listi með rauðum penna með nöfnum barna sem voru drepin. Þrír veggir herbergisins eru undirlagðir af svarthvítum myndum. Hvert ár á sinn vegg: 1979, 1980 og 1981. Börnin á myndunum á lögreglustöðinni í Atlanta eru nánast öll brosandi. Hver myrti þessi börn?

New York Times fjallaði ítarlega um fjöldamorð sem framin voru í Atlanta fyrir fjörutíu árum í vikunni. Á þriðja tug barna og fullorðinna voru myrt í borginni á aðeins þremur árum. Rúmlega 20 þeirra voru á aldrinum 7-17 ára. Þau hurfu sporlaust og það var ekki fyrr en nokrum vikum eða mánuðum síðar sem lík þeirra fundust, í ám, undir brúm, bak við ruslagáma.

Fulton County Police

Íbúar Atlanta voru skelfingu lostnir og fátt eitt sem var líkt með fórnarlömbunum annað en að vera ung að árum og svört. Strákar voru í miklum meirihluta. Óttaslegnir foreldrar neituðu að senda börn sín í skóla og þeim var bannað að fara út fyrir hússins dyr. Sálfræðingar voru kallaðir til af yfirvöldum og útgöngubann sett á kvöldin. 

Árið 1982 var Wayne Williams dæmdur fyrir morð á tveimur fullorðnum einstaklingum. Lögregla taldi að hann stæði á bak við morðin á flestum barnanna sem og fjórum ungmennum. En þrátt fyrir að saksóknarar legðu fram göng sem tengdu hann við einhver málanna var hann aldrei ákærður fyrir morðin á börnunum. Enginn var ákærður fyrir að hafa drepið börnin. Williams hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu en hann afplánar nú tvöfaldan lífstíðardóm fyrir morð.

Eftir að Williams hóf afplánum var 22 óleystum morðmálum lokað og skjölin sett til hliðar. Spurningin hefur hins vegar lifað meðal fólks: Hver drap börnin í Atlanta?

Wayne Williams.
Wayne Williams.

Nýlega var rykið þurrkað af gögnunum og rannsókn hafin að nýju. Í lok mars sendi Wayne Williams frá sér yfirlýsingu þar sem hann fagnar þessu og ítrekar að hann hafi ekki myrt þessi börn. Á fréttavefnum AJC í Atlanta var fjallað um málið í kjölfarið en margir foreldrar barnanna telja að Williams hafi ekki myrt börnin. Hann sendir þeim jólakort á hverju ári og lýsir yfir sakleysi sínu. Aðrir eru á öndverðum meiði og telja hafið yfir allan vafa að Williams hafi framið morðin. Kannski ekki öll en mörg þeirra. 

Reynt að þagga niður í foreldrum

Ýmsir foreldranna segja að borgaryfirvöldum sé mikið í mun að þagga niður í háværri gagnrýni þeirra. Það hafi berlega komið í ljós þegar Williams var dæmdur. Málsskjölum pakkað í kassa og þau látin safna ryki án þess að spurningum hafi verið svarað. Spurningum sem brunnu á allra vörum um afdrif þessara barna. 

Keisha Lance Bottoms, borgarstjóri í Atlanta.
Keisha Lance Bottoms, borgarstjóri í Atlanta. Wikipedia

Borgarstjórinn í Atlanta, Keisha Lance Bottoms, var enn í barnaskóla þegar morðin voru framin. Hún segir í samtali við NYT að hún muni vel eftir viðvörunum foreldra um að fara ekki út fyrir hússins dyr. Það var hennar ákvörðun að hefja rannsókn að nýju og beita nýjustu og fullkomnustu tækni við rannsókn á lífsýnum sem til eru. Hún segist vonast til þess að ný rannsókn muni hjálpa einhverjum fjölskyldum að öðlast frið sem í svo mörg ár hafi litið svo á að þær hafi gleymst. 

Wayne Williams er sextugur en hann var 23 ára gamall þegar hann var dæmdur. Hann afplánar í ríkisfangelsi í um þriggja tíma akstursfjarlægð frá Atlanta. Þrátt fyrir að hann neiti að vera barnsmorðingi segir lögreglustjórinn í Atlanta, Erika Shields, að rannsóknin snúist ekki um hann. „Þetta snýst um að við getum litið í augu fjölskyldna þessara barna og sagt við gerðum allt sem í okkar valdi stóð til þess að ljúka þessum málum,“ segir hún. 

Sumarið 1979 fundust líkamsleifar tveggja unglingspilta í skóglendi suðvestur af Atlanta. Þeirra hafði verið saknað í nokkra daga. Annar þeirra hvarf þar sem hann hafði verið á skautum, hinn á heimleið úr bíói.

Wayne Williams.
Wayne Williams. Skjáskot

Danny Agan, sem var í morðdeild rannsóknarlögreglunnar á þessum tíma, segir að engan hafi grunað á þessum tíma hvert framhaldið yrði. Að líkfundurinn væri aðeins upphafið að tveggja ára martröð þar sem fjöldamorðingi hélt borgarbúum í greipum óttans, hvaða barn verður næst?

Næstu 22 mánuði var 22 börnum til viðbótar, þar á meðal tveimur stúlkum, rænt og þau kyrkt, skotin, stungin eða limlest ásamt fjórum ungmennum sem voru orðin 18 ára að aldri. Einn þeirra, Darron Glass, sást síðast í september 1980 en þá var hann tíu ára gamall. Hann hefur aldrei fundist. 

„Það var eins og ný lík fyndust á hverjum degi, á hverri nóttu. Borgin var á hvolfi. Það var stórt svart ský yfir okkur,“ segir Sheila Baltazar, 61 árs, í samtali við NYT en stjúpsonur hennar, Patrick Baltazar, var 12 ára gamall þegar hann var drepinn árið 1981. „Það eina sem við gátum gert var að reyna að vernda börn okkar.“

Lögreglan reyndi að finna einhver tengsl milla þeirra látnu án árangurs en alls tóku um 100 lögreglumenn þátt í rannsókninni. 

Liðsmaður Ku Klux Klan.
Liðsmaður Ku Klux Klan. AFP

Þegar Curtis Walker, 13 ára, hvarf veturinn 1981 höfðu 19 börn annaðhvort horfið eða fundist látin í borginni. Hann var nýkominn heim og mamma hans bannaði honum að fara út að leika sér. „Vertu inni. Þeir ræna börnum,“ sagði  Catherine Leach við son sinn þar sem hún sinnti eldamennsku. En hann hlýddi ekki móður sinni og laumaðist út til þess að vinna sér inn aukapening við að bera matvöru heim fyrir eldra fólk úr matvöruversluninni. Hann kom aldrei heim aftur.

Í tvær vikur beið Leach, sem er sjötug í dag, eftir fregnum af drengnum. Curtis var næstelstur í hópi fjögurra bræðra. Hann ætlaði sér að sigra heiminn í Hollywood. Þá kom símtalið. Nágranni hennar hringdi og sagði: Kveiktu á fréttunum. „Ó Guð minn góður,“ segir Leach og grætur þegar blaðamaður NYT ræðir við hana nú 38 árum síðar. 

„Ég horfði á hann dreginn upp úr vatninu í sjónvarpinu. Ég vissi að þetta væri hann.“

Wayne Williams
Wayne Williams Handout

Höfum aldrei fengið svör

Þrátt fyrir að morðið á syni hennar sé eitt þeirra tíu morðmála sem yfirvöld telja Williams bera ábyrgð á efast Leach um að hann sé morðinginn. Hún er ekki ein um þá skoðun því margir foreldrar eru sannfærðir um að öfgasamtökin Ku Klux Klan beri ábyrgð á morðunum.

„Við viljum vita hverjir drápu börnin okkar,“ segir Leach og bætir við að henni finnist að sonur hennar og hin börnin hafi gleymst. „Við höfum aldrei fengið svör.“

Morðin í Atlanta vöktu skelfingu fólks um öll Bandaríkin.
Morðin í Atlanta vöktu skelfingu fólks um öll Bandaríkin. Murderpedia

Í grein Orra Páls Ormarssonar í Sunnudagsmogganum árið 2011 kom fram að lögregla hafi vorið 1981 haft grunsemdir um að morðinginn myndi fleygja næsta fórnarlambi sínu í vatn í ríkinu til að má út sönnunargögn og vaktaði fyrir vikið öll helstu vötn í grenndinni gaumgæfilega. Sú ráðstöfun bar árangur en að kvöldi 22. maí 1981 heyrði lögreglumaður á vakt við Chattahoochee-ána skvamp undir brú við ána. Í kjölfarið sá hann bifreið af Chevrolet-gerð aka í burtu.

Lögregla stöðvaði bílinn skammt frá en undir stýri var 23 ára gamall maður, Wayne Williams, sem starfaði sem plötusnúður og umboðsmaður tónlistarmanna. Aðspurður kvaðst Williams vera á leið til bæjarins Smyrna að hlusta á unga og upprennandi söngkonu, Cheryl Johnson. Síðar kom í ljós að símanúmerið sem hann gaf lögreglu var ekki í notkun og við eftirgrennslan fannst hvorki tangur né tetur af Cheryl þessari.

Sjálfboðaliðar tóku þátt í leit að börnum sem hurfu.
Sjálfboðaliðar tóku þátt í leit að börnum sem hurfu. Murderpedia

Tveimur dögum síðar fannst nakið lík hins 27 ára gamla Nathaniels Carters á floti í Chattahoochee-ánni, skammt frá brúnni, þar sem lögreglumaðurinn heyrði skvampið. Það hafði ekki verið lengur en 48 klukkustundir í vatninu, að dómi líkskoðara, að því er sagði í grein Orra Páls. 

Lík Nathaniel Cater fannst í Chattahoochee-ánni.
Lík Nathaniel Cater fannst í Chattahoochee-ánni. Murderpedia

Í kjölfarið tengdi rannsóknarlögreglan saman hár og þræði úr teppi á líkömum einhverra fórnarlambanna við heimili og bíl Williams. 

„Wayne Williams er raðmorðingi og óargardýr“

Agan, sem var í lögreglunni í 29 ár, segir að hluti af ástæðunni fyrir því að fólk vilji trúa á sakleysi Williams, ekki síst svartir, sé vantraust fólks til lögreglunnar. Í hans huga er enginn vafi um að það hafi verið bifreið Williams sem lögreglan sá fara yfir brúna. Trú hans á sekt Williams byggi ekki bara á nokkrum þráðum úr teppi heldur séu sönnunargögnin fleiri. Fleiri þræðir og hundshár auk framburðar vitna. Það séu óyggjandi sönnur fyrir því að þetta hafi verið Wayne Williams sem var á brúnni þennan umrædda dag og nokkrum dögum síðar skolaði tveimur líkum á land,“ segir Agan. „Wayne Williams er raðmorðingi og óargadýr og framdi flest þessara morða.“

Erika Shields, lögreglustjóri í Atlanta.
Erika Shields, lögreglustjóri í Atlanta. Lögreglan í Atlanta

Árið 2010 var gerð lífsýnarannsókn á hárum sem fundist á líki Patrick Baltazar, 16. fórnarlambinu. Niðurstaðan útilokaði ekki að hárin væru af Williams og ekkert nýtt kom í ljós við rannsóknina. 

Gulllituð sundskýla

Anthony Terrell er 48 ára gamall og undanfarna fjóra áratugi hefur hann nánast daglega reynt að ímynda sér hvað gerðist daginn sem stóri bróðir hans, Earl, hvarf eftir að hafa yfirgefið sundlaugina í hverfinu. Er eitthvað sem hann er að gleyma sem getur veitt vísbendingar um hvarfið?

Terrell sagði blaðamanni New York Times frá þessum degi nýverið. þeir hittust í Ellenwood-kirkjugarðinum þar sem bróðir hans hvílir.

Síðdegis á sólríkum degi í júlí 1980 var þeim bræðrum boðið í sund en hann varð eftir heima til þess að gæta tveggja yngri bræðra. Earl fékk lánaða sundskýluna hans og tvo Bandaríkjadali fyrir aðgangseyri að sundlauginni. Earl var fljótlega rekinn upp úr fyrir ólæti og gerðu allir ráð fyrir að hann hefði farið heim en þegar kvölda tók varð ljóst að eitthvað var öðruvísi en það átti að vera. Vinir og ættingjar tóku þátt í leitinni án árangurs næstu daga.

Skjáskot

Nokkrum mánuðum síðar fundust líkamsleifar hans í skóglendi. Terrell aðstoðaði móður þeirra við að bera kennsl á hann. Sundskýlan, sem var gyllt á lit, varð til þess að þau vissu að þetta væri Earl. „Hvað ef ég hefði farið í sund í hans stað?“ spyr Terrell sig reglulega. Hann segir óskiljanlegt hvernig morðinginn náði Earl því hann var baráttujaxl.

Bottoms hefur verið borgarstjóri í Atlanta frá árinu 2017 en hún var sjö ára þegar morðin hófust. Hún minnist þess þegar amma hennar og frænka grátbáðu mömmu hennar um að senda barnið til þeirra í Chicago. 

KKK, Ku Klux Klan, hópur kynþáttahatara.
KKK, Ku Klux Klan, hópur kynþáttahatara. AFP

Hún segir að þetta sé tímabil sem enginn gleymi sem bjó í Atlanta á þessum árum. Þegar hún las nýverið um mál tveggja ungmenna í Alabama en morðingi þeirra náðist nýverið á grundvelli lífsýna varð henni strax hugsað til Atlanta-morðanna.

Í mars tilkynnti hún um að rannsókn yrði hafin að nýju og að borgaryfirvöld myndu setja á laggirnar minningarreit um börnin sem létust. Á sama tíma var sett upp símaþjónusta þar sem fólk gat komið með ábendingar tengdar morðunum. Fimmtíu tilkynningar bárust á nokkrum dögum og eru 16 þeirra til rannsóknar. Að sögn Shields lögreglustjóra eru þrjár lykilspurningar í málinu: Hvar eru öll sönnunargögnin? Hversu mörg mál er hægt að rannsaka að nýju? Hvaða tímabil?

Hún segir að 15 ára tímabil sé nú til rannsóknar, 1970 til 1985. Rannsóknarteymið fer nú yfir glæpamál sem komu upp á þessu tímabili en voru aldrei tengd sem hluti Atlanta-morðanna. Á þessu tímabili voru 157 börn myrt, þar á meðal 24 börn sem þegar eru tengd rannsókninni. Mörg þeirra voru þolendur heimilisofbeldis. Hin eru til rannsóknar og verða jafnvel hluti af nýrri morðrannsókn.

Hún segir að 22 málum hafi verið lokað án niðurstöðu á sínum tíma og það sé ekki í hennar verkahring að dæma þá sem tóku þá ákvörðun þrátt fyrir að í einhverjum tilvikum sé nákvæmlega ekkert sem tengir Williams við morðin. Shields telur að þar hafi pólitískur þrýstingur ráðið miklu og lögreglan ekki fengið það næði til að vinna að rannsókninni sem hún þurfti. 

Þær Shields og Bottoms vita ekki hvað rannsóknin mun leiða í ljós en þær vonast báðar til þess að hægt verði að veita fjölskyldum barnanna einhverjar upplýsingar um afdrif þeirra. Er Willams raðmorðingi eða er hann saklaus líkt og hann heldur sjálfur fram? Þeirri spurningu er enn ósvarað.

Grein New York Times

CNN

Fox

Jacksonville free press

WVLT

Fleiri CNN fréttir

CNN

Colorline

AJC

USAToday

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert