7 farast í árásum í Ísrael og á Gaza

Skemmdir á húsi í Gazaborg sem varð illa úti í …
Skemmdir á húsi í Gazaborg sem varð illa úti í árásum gærdagsins. Átök virðast nú fara harðnandi milli Ísraela og Palestínumanna. AFP

Átök virðast nú fara harðnandi milli Ísraela og Palestínumanna. Skutu uppreisnarmenn á Gaza hundruð eldflauga yfir til Ísrael í gær og svaraði ísraelski herinn með loftárásum á yfir hundrað skotmörk á svæðinu að því er CNN hefur eftir ísraelska varnarmálaráðuneytinu. Segir herinn yfir 430 flaugum hafa verið skotið frá Gaza frá því í gærmorgun og að loftvarnir Ísraels hafi stöðvað margar þeirra.

Yfirvöld á Gaza segja sex Palestínumenn hafa fallið í árásum Ísraela, þá er einn ísraelskur maður sagður hafa farist í árás Hamas-liða á borgina Ashkelon að sögn ísraelsku lögreglunnar og eins á ísraelsk kona að hafa særst alvarlega.  Þá fullyrða vígasamtökin Ríki íslams að tveir liðsmenn samtakanna séu í hópi hinna látnu og eru þeir lofaðir í tilkynningu samtakanna sem „vígamenn“.

Ísraelski herinn neitaði hins vegar í dag fullyrðingum yfirvalda á Gaza að ólétt kona og barn hennar, sem létust í árásunum, hafi látist fyrir tilstilli loftárása Ísraela og fullyrðir að dauða konunnar megi rekja til villuráfandi skots frá Hamas-liðum.

„Þetta er spunaáróaður hryðjuverkasamtakanna eins og hún gerist best,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Ronen Manelis talsmanni Ísraelshers.

Tvær stórar byggingar í Gazaborg eyðilögðust þá í árásunum og fullyrða Ísraelar að leyniþjónusta Hamas-liða og skrifstofur öryggislögreglunnar hafi verið í annarri þeirra. Tyrknesk stjórnvöld hafa hins vegar greint frá því að tyrkneska ríkisfréttastofan Anadolu hafi verið með skrifstofur í annarri byggingunni og hafa þau fordæmt árásirnar.

Sameinuðu þjóðirnar hafa greint frá því að samtökin vinni nú að því ásamt stjórnvöldum í Egyptalandi að koma á vopnahléi á ný og segja deiluaðila báða auka á þjáningar Gazabúa með aðgerðum sínum.

mbl.is