Aðeins 37 lifðu af

AFP

Talið er að 41 hafi látist þegar alelda farþegaþotu var nauðlent á aðalflugvellinum í Moskvu í dag. Alls voru 78 um borð, 73 farþegar og fimm manna áhöfn. Samkvæmt flugmálayfirvöldum lifðu aðeins 37 flugslysið af sem varð um miðjan dag.

Myndskeið sem hafa farið víða á samfélagsmiðlum sýna þotu rússneska flugfélagsins Aeroflot lenda alelda á Sheremetjevo-alþjóðaflugvellinum. Þar mátti sjá farþega renna sér niður uppblásna neyðarbraut og forða sér á hlaupum frá brennandi flugvélinni. 

Farþegaþotan, sem er af Sukhoi Superjet-100 gerð, hafði skömmu áður farið í loftið frá sama flugvelli. Flug Su-1492 fór í loftið klukkan 15:02 að íslenskum tíma en skömmu eftir flugtak gerði áhöfnin sér grein fyrir því að eitthvað var ekki með felldu og óskaði eftir því að fá að snúa aftur. Klukkan 15:30 var henni nauðlent. 

AFP

Dagblaðið Komsomolskaya Pravda hefur eftir farþega sem var um borð í þotunni að þau hafi verið nýlega komin í loftið þegar vélin varð fyrir eldingu. 

Heimildir Interfax herma að fyrsta tilraun til nauðlendingar hafi mistekist og þegar lendingarbúnaðurinn snerti flugbrautina (í annarri tilraun) lenti nef vélarinnar einnig í jörðinni og kviknaði í því. 

AFP

Interfax hefur einnig heimildir fyrir því að þotan hafi verið full af eldsneyti þegar hún nauðlenti þar sem flugmennirnir hafi misst samband við flugumferðarstjórn og of hættulegt hafi þótt að losa eldsneytistankana yfir Moskvuborg. 

Ria Novosti-fréttastofan segir aftur á móti að talið sé að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert