Almenningur afhendi bæði hnífa og sverð

Hermenn á Sri Lanka gera hér leit í bíl við …
Hermenn á Sri Lanka gera hér leit í bíl við höfnina í höfuðborginni Colombo. Mikill viðbúnaður hefur verið í landinu eftir hryðjuverkaárásirnar á páskadag. AFP

Yfirvöld á Sri Lanka hvetja nú landsmenn til að láta af hendi öll sverð og stóra hnífa. Er þetta hluti af auknum viðbúnaði stjórnvalda í kjölfar hryðjuverkaárása á páskadag sem kostuðu yfir 250 manns lífið.

BBC hefur eftir lögregluyfirvöldum á Sri Lanka að beiðnin taki ekki til löglegra hnífa sem notaðir eru til hversdagsverka.

Hald hefur verið lagt á hundruð vopna í húsleitum sem gerðar hafa verið frá árásunum á páskadag.

Auk beiðninnar um að vopn verði látin af hendi hefur talsmaður lögreglunnar, Ruwan Gunasekara, hvatt þá sem eiga „lögreglubúninga eða hermannafatnað í felulitum“ til að skila þeim inn á næstu lögreglustöð nú um helgina. Hann greindi hins vegar ekki frá því hvort þeir sem skiluðu inn vopnum sínum nú um helgina hlytu friðhelgi.

Rannsókn lögreglu á árásunum er enn í gangi og greindi Maithripala Sirisena, forsætisráðherra Landsins, Reuters-fréttaveitunni í gær frá því að á bilinu 25-30 manns sem tengjast árásunum léku enn lausum hala.

mbl.is