Fundu fót í þvottavél

Torstein Baade Rø, forstöðumaður Stofnunar klínískrar og sameindalæknisfræði (n. Institutt …
Torstein Baade Rø, forstöðumaður Stofnunar klínískrar og sameindalæknisfræði (n. Institutt for klinisk og molekylær medisin) við NTNU, með sams konar kennslufót og þann sem fannst í þvottavélinni. „Við áttuðum okkur strax á því að þetta hlaut að vera okkar fótur,“ sagði Rø sem hefur beðið starfsfólk þvottahússins allrar velvirðingar. Ljósmynd/Jørn Ove Sæternes/Norges Tekniske og Naturvitenskapelige Universitet (NTNU)

Það var síðdegis á fimmtudaginn sem starfsfólk þvottahúss Nor Tekstil AS í Þrándheimi í Noregi, sem þvær sængurföt og lín fyrir heilbrigðisstofnanir þar í borg, var við sín daglegu störf að tæma eina af þvottavélum fyrirtækisins. Varð þá sá óvænti fundur að neðst í vélinni, undir hrúgu af nýþvegnum sængurfötum, leyndist fótur af manneskju.

Uppi varð fótur og fit í þvottahúsinu og áttu stjórnendur þar í mestu vandræðum með hvernig bregðast skyldi við. Afréðu þeir þó að lokum að senda fyrirspurn til viðskiptavina sinna í heilbrigðisgeiranum þar sem spurt var „Saknið þið fótar?“

Fátt var um svör í fyrstu þar til svar barst frá Stofnun klínískrar og sameindalæknisfræði (n. Institutt for klinisk og molekylær medisin) sem gekkst við fætinum, en stofnunin heyrir undir Tækni- og náttúruvísindaháskóla Noregs (n. Norges Tekniske og Naturvitenskapelige Universitet (NTNU)) sem deilir húsnæði með St. Olavs-sjúkrahúsinu í Þrándheimi.

„Hlaut að vera okkar fótur“

„Við áttuðum okkur strax á því að þetta hlaut að vera okkar fótur,“ sagði Torstein Baade Rø, forstöðumaður sameindalæknisfræðistofnunarinnar, í samtali við norska dagblaðið VG í gær.

Útskýrði Rø málið þannig að um væri að ræða smurðan fót af manneskju sem gefið hefði læknavísindunum líkama sinn að sér genginni og væru líkamshlutar og líffæri, sem þannig kæmu til, varðveitt og svo notuð við kennslu og æfingar meðal annars í skurðlæknisfræði.

„Yfirleitt erum við með líkamshluta af allt að tólf manns í þessum tilgangi,“ sagði Rø og bætti því við að líkamshlutarnir væru geymdir inni í lökum sem skipt væri um á 14 daga fresti og þau send í þvott. Fóturinn sem fannst hjá Nor Tekstil hafi einfaldlega þvælst með einu lakanna í misgripum.

„Okkur þykir þetta ákaflega leiðinlegt og ég er búinn að senda afsökunarbeiðni til þvottahússins þar sem ég útskýrði hvernig þetta gat gerst,“ sagði hann enn fremur og bætti því við nú yrði farið ítarlega í saumana á verkferlum við lakskiptin með starfsfólki stofnunar hans.

Starfsfólk á vegum stofnunarinnar bankaði svo upp á í þvottahúsinu á föstudagsmorguninn og sótti fótinn sinn.

Fréttir annarra fjölmiðla af málinu:

Aftenposten

Adressa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert