Gröf Fílamannsins fundin

John Hurt sem Joseph Merrick.
John Hurt sem Joseph Merrick. Ljósmynd/Wikipedia.org

Ómerkt gröf Joseph Merrick, sem er þekktur sem Fílamaðurinn, er fundin en hennar hefur verið leitað í 130 ár. Sem ungbarn sýndi Merrick ekki merki um neitt óeðlilegt en á fyrstu árum ævinnar fór að bera á afmyndun sem jókst eftir því sem hann varð eldri. Afmyndunin var mikill ofvöxtur í húð þannig að holdið myndaði nánast fellingar og einnig afmynduðust útlimir og höfuð.

Talið var að beinagrind hans væri í geymslu konunglega breska sjúkrahússins en rithöfundurinn Jo Vigor-Mungovin segir að hún hafi komist á snoðir um að hann var grafinn í kirkjugarðinum í London eftir andlátið 1890.

Á Vísindavef Háskóla Íslands er ítarlega fjallað um Merrick en hann átti mjög erfiða ævi. Hann reyndi að vinna fyrir sér á unglingsárunum en vansköpunin gerði honum mjög erfitt fyrir. Fólk hræddist útlit hans, hann átti erfitt með að beita annarri hendinni sem var mikið afmynduð, hann átti erfitt með gang, bæði vegna afmyndaðra fóta og vegna meiðsla á mjöðm sem hann varð fyrir sem barn og loks átti hann erfitt með tal og gat illa gert sig skiljanlegan vegna mikils ofvaxtar í andliti.

Sautján ára var honum komið fyrir á þurfamannastofnun. Vistin þar var ekki góð en Merrick átti ekki mikla möguleika á að sjá sér farborða sjálfur. Eftir fjögur ár á þurfamannaheimilinu fannst honum þó nóg komið og leitaði til manns að nafni Sam Torr sem var einhvers konar skemmtikraftur eða skemmtanastjóri í Leicester og bauð honum þjónustu sína með það fyrir augum að gerast viðundur að atvinnu.

Torr sá að þarna var gróðaleið því viðundrasýningar voru vinsæl skemmtun á þessum tíma. Hann ferðaðist með Merrick um landið og kynnti hann sem „Fílamanninn, hálfur maður, hálfur fíll“. Þegar Merrick var til sýnis í London frétti Frederick Treves læknir við sjúkrahúsið í London af honum. Hann fékk leyfi til þess að rannsaka Merrick á spítalanum og hélt síðar fyrirlestur um hann.

Merrick hélt síðan til Frakklands í sýningarferð en þar gekk allt á afturfótunum og komst hann aftur til Englands við illan leik. Þegar þangað kom átti hann í engin hús að venda og var að niðurlotum kominn. Lögreglumaður sem kom honum til aðstoðar fann nafnspjald Treves hjá Merrick og kom honum í hendur hans. Treves bjó svo um hnútana að Merrick var lagður inn á spítalann þar sem Trevers vann og fékk hann að dveljast þar það sem hann átti eftir ólifað. Joseph Merrick lést í svefni árið 1890 og var talið að hann hefði kafnað við það að reyna að sofa liggjandi; vegna þess hve líkami hans var afmyndaður svaf hann alltaf sitjandi í rúminu.

Joseph Merrick.
Joseph Merrick. Wikipedia

Allt frá því Merrick komst fyrst undir læknishendur hafa læknar reynt að geta sér til um hvað hrjáði hann og olli þessari miklu afmyndun. Nú er helst talið að hann hafi þjáðst af sjúkdómi eða heilkenni sem kennt er við gríska sjávargoðið Próteus og kallast á ensku Proteus syndrome. Próteus var sjávargoð í þjónustu Póseidons og gat breytt sér í allra kvikinda líki. Próteus-heilkennið er afar sjaldgæft og aðeins hafa verið staðfest um 200 tilfelli af því. Merrick var þess vegna ekki með sjúkdóminn fílaveiki eins og einhverjir kunna að halda út frá nafninu, segir á Vísindavef Háskóla Íslands.

John Hurt fór með hlutverk Fílamannsins.
John Hurt fór með hlutverk Fílamannsins. Morgunblaðið

Vigor-Mungovin hefur skrifað ævisögu Merrick og hún segir í samtali við BBC að eftir að hafa farið í gegnum bækur kirkjugarðsins hafi hún fundið nafn Joseph Merrick og miðað við þær upplýsingar eru 99% líkur á að um Fílamanninn sé að ræða, þessi var jarðaður 24. apríl 1890 en Merrick lést 11. apríl. Þar segir að hann hafi verið búsettur á sjúkrahúsinu í London og að hann hafi verið 28 ára. Hið rétta er að Merrick var 27 ára gamall en fæðingardagur hans var rangt skráður þannig að það getur verið skýringin. 

Leikrit eftir Bernard Pomerance byggt á ævi Merricks var sett upp árið 1977 og naut mikilla vinsæla og vann til verðlauna. Árið 1980 gerði leikstjórinn David Lynch kvikmyndina Fílamaðurinn (The Elephant Man) þar sem leikarinn John Hurt fór með hlutverk Merricks og Anthony Hopkins túlkaði lækninn Trevers. Myndin naut mikillar hylli bæði almennings og gagnrýnenda og hlaut átta tilnefningar til Óskarsverðlauna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert