Vígamenn meðal látinna á Gaza

Gaza-borg í dag.
Gaza-borg í dag. AFP

Tveir palestínskir vígamenn voru drepnir í árásum Ísraelshers á Gaza-ströndina og hafa því árásir Ísraela kostað sjö mannslíf á Gaza í dag. Talsmaður heilbrigðisráðuneytis Gaza segir að mennirnir, Mohammed abu Armanah, 30 ára, og Mahmoud abu Armanah, 27 ára, hafi látist og vígasamtökin Islamic Jihad hafa staðfest að mennirnir hafi verið liðsmenn hernaðararms samtakanna. Þrír létust í eldflaugaárásum Hamas og fleiri hernaðarsamtaka á Ísrael í dag. 

Reynt að slökkva eld í bifreið Hamas-liðans Hamad al-Khodori eftir …
Reynt að slökkva eld í bifreið Hamas-liðans Hamad al-Khodori eftir að Ísraelar hæfðu bifreiðina í loftárás á Gaza-borg í dag. AFP

Árásir milli ríkjanna hafa stigmagnast undanfarna daga og er talið að Palestínumenn hafi skotið yfir 600 eldflaugum á yfirráðasvæði Ísraela um helgina. Margar þeirra voru skotnar niður af hernum en þrír Ísraelar hafa látist í árásunum, samkvæmt upplýsingum frá Ísraelsher. 

AFP

Ísraelsher segist hafa hæft 260 skotmörk á Gaza-ströndinni og hefur hótað gríðarlegum loftárásum áfram. Yfirvöld á Gaza segja að níu Palestínumenn hafi látist frá því á föstudag.

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, sagði í dag að hann hefði fyrirskipað hernum að halda uppi stöðugum árásum á hryðjuverkasamtök á Gaza-ströndinni. 

Frétt BBC

Átökin nú hófust á föstudag þegar herkví Gaza var mótmælt af Palestínumönnum en Ísraelar segja það nauðsynlegt til þess að stöðva vopnasendingar til vígamanna. Palestínumaður skaut og særði tvo ísraelska hermenn við öryggisgirðingar á landamærunum og svöruðu ísraelskir hermenn með loftárásum sem tveir vígamenn létust í. 

Eldflaug Palestínumanna hæfði þessa bifreið skammt frá Yad Mordechai í …
Eldflaug Palestínumanna hæfði þessa bifreið skammt frá Yad Mordechai í Suður-Ísrael. AFP

Í gærmorgun hófu Palestínumenn að skjóta eldflaugum yfir á landsvæði Ísraela en eldflaugavarnarkerfi Ísraela, Iron Dome, stöðvaði för tuga þeirra en einhverjar eldflaugar hæfðu heimili í ísraelskum bæjum og þorpum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert