Vígasamtök hóta Eurovision

Æfingar halda áfram þrátt fyrir að söngvakeppninni hafi verið hótað.
Æfingar halda áfram þrátt fyrir að söngvakeppninni hafi verið hótað. Ljósmynd/Andres Putting

Vígasamtökin Íslamskt jihad (Palestinian Islamic Jihad) sendu í gær frá sér hótun gegn söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva Eurovision að því er ísraelska dagblaðið Jerusalem Post greinir frá. Undirbúningur keppninnar, sem fer fram í Tel Aviv í Ísrael eftir tæpar tvær vikur, heldur þó áfram samkvæmt áætlun.

Tilkynntu Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) í gær að vinna vegna keppninnar muni halda óbreytt áfram, en að grannt verði fylgst með þróun mála.

„Öryggi er ávallt í fyrirrúmi hjá EBU,“ sagði í skriflegu svari við fyrirspurn The Jerusalem Post vegna málsins. „Við höldum áfram okkar starfi í samstarfi við KAN (ísraelska ríkissjónvarpið) og höfuðstöðvar ísraelska hersins (Home Front Command) til þess að tryggja öryggi allra starfsmanna og gesta í Expo Tel Aviv höllinni.“

Engin Dana International

Tónleikum með Eurovision-þema, sem áttu að fara fram í gærkvöldi, var aflýst með nokkurra klukkutíma fyrirvara í kjölfar skipunar frá höfuðstöðvum hersins sem bannaði allar fjöldasamkomur. Stóð til að Dana International, sem sigraði keppnina 1998, myndi stíga á svið.

Átök hafa geisað í suðurhluta landsins við landamæri Gaza og hefur spenna milli Ísraelsríkis og Palestínu verið að aukast. Hundruðum flugskeyta hefur verið skotið milli Ísraels og Gaza og frá því í gærmorgun hafa átta látið lífið og tugir særst. 

Ljósmyndin tekin í þorpinu Netiv Haasara í Ísrael sýnir eldflaugar …
Ljósmyndin tekin í þorpinu Netiv Haasara í Ísrael sýnir eldflaugar sem skotnar voru frá Gaza. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina