Trump vill ekki að Mueller beri vitni

Donald Trump Bandaríkjaforseti vill ekki að Mueller beri vitni fyrir …
Donald Trump Bandaríkjaforseti vill ekki að Mueller beri vitni fyrir dómsmálanefndinni um skýrslu sína. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti snerist á sunnudag frá sinni fyrri skoðun að það væri dómsmálaráðherrans að ákveða hvort Robert Mueller, sérstakur saksóknari bandarísku alríkislögreglunnar FBI ætti að bera vitni fyrir Bandaríkjaþingi vegna skýrslu sinnar. Sagði Trump á Twitter í gær að Mueller ætti ekki að koma fyrir dómsmálanefnd fulltrúadeildar þingsins. CNN greinir frá.

Mueller skilaði í mars inn skýrslu um afskipti rússneskra ráðamanna af bandarísku forsetakosningunum 2016. Í skýrslunni kemst Mueller að þeirri niðurstöðu að forsetinn hafi ekki gerst sekur um að hafa átt í sam­starfi við Rússa í tengsl­um við af­skipti þeirra af kosn­ing­un­um, en hreinsaði hann ekki af ásökunum um að hafa hindrað framgang réttvísinnar við rannsóknina.

Dró Trump í efa í færslum sínum að dómsmálefnd fulltrúadeildarinnar, sem demókratar eru með meirihluta í, þyrftu að ræða við Mueller eftir að niðurstöður 2ja ára rannsóknar hans lægju fyrir.

„Eru þeir að leita leiða til að endurtaka af því að þeir hata að sjá skýra niðurstöðu um ekkert leynimakk? Það var enginn glæpur, nema hjá hinni hliðinni (sem ótrúlegt en satt er ekki fjallað um í skýrslunni) og engin hindrun,“ skrifaði forsetinn og kvað demókrata ekki fá að taka málið upp aftur.  

Er Trump var spurður á föstudag hvort Mueller ætti að bera vitni fyrir nefndinni sagði hann: „Ég veit það ekki. Það er dómsmálaráðherrans, sem hefur unnið frábært starf, að ákveða.“ Dómsmálanefndin hefur gagnrýnt ráðherrann, William Barr, fyrir að neita nefndinni um að sjá óritskoðaða útgáfu skýrslunnar.

Það var svo eftir að David Cicilline, einn nefndarmannanna, greindi fréttastofnu Fox-sjónvarpsstöðvarinnar frá því að hugmyndir væru uppi um að Mueller kæmi fyrir nefndina 15. maí þótt ekkert hefði verið ákveðið, að Trump tjáði sig um málið á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert