Blaðamenn Reuters í Búrma látnir lausir

Blaðamennirnir Wa Lone og Kyaw Soe Oo veifa til fjölmiðla …
Blaðamennirnir Wa Lone og Kyaw Soe Oo veifa til fjölmiðla er þeir ganga út um hlið Insein-fangelsisins þar sem þeir dvöldu í á annað ár. AFP

Tveir blaðamenn Reuters-fréttaveitunnar, sem hafa verið í haldi í Búrma (Mijanmar) í hátt á annað ár fyrir fréttaflutning sinn af rohingja-deilunni, hafa nú verið látnir lausir.

BBC segir blaðamennina, þá Wa Lone og Kyaw Soe Oo, hafa verið náðaða með forsetatilskipun, en þeir höfðu verið dæmdir til sjö ára fangelsisvistar fyrir brot á lögum er varða rík­is­leynd­ar­mál með því að greina frá fjölda­morði á rohingj­um í land­inu. Höfðu þeir dvalið rúma 500 daga í fangelsi þegar forseti Búrma náðaði þá.

Þeir Lone og Oo voru handteknir í desember 2017 og dæmdir fyrir að hafa undir höndum leyniskjöl um aðgerðir hersins í Rakhine-héraði, en blaðamenn­irn­ir unnu að rann­sókn á morðum á tíu rohingj­um í Rak­hine-héraði í sept­em­ber 2017.

Sjálfir sögðu þeir brögð hafa verið í tafli við hand­tök­una. Þeim var boðið í mat með lög­reglu í Yangon, þar sem þeim voru af­hent gögn og síðan hand­tekn­ir þegar þeir yf­ir­gáfu mat­ar­boðið. Var þeim gefið að sök að hafa í fór­um sín­um leyniskjöl um aðgerðir rík­is­ins á svæðinu.

Handtaka blaðamannanna sætti gagnrýni alþjóðasamfélagsins og var m.a. sögð árás á fjölmiðlafrelsi.

Wa Lone sagði við BBC er hann var látinn laus að hann myndi aldrei hætta að vera blaðamaður.

„Ég er svo hamingjusamur og spenntur að hitta fjölskyldu mína og kollega. Ég get ekki beðið eftir að komast aftur á fréttastofuna,“ sagði hann.

mbl.is