Boðað til kosninga í Danmörku

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur.
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur. AFP

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur boðað til kosninga 5. júní. „Ég vil nota all­an minn styrk, hæfni og reynslu til að halda áfram að leiða Dan­mörku,“ sagði Rasmus­sen í ræðu í danska þing­inu.  Hann hafði þá öll­um að óvörum beðið um að fá orðið í þing­inu og til­kynnti að kjör­dag­ur hefði verið fast­sett­ur.

Þess hefur verið beðið um nokkuð skeið en í Danmörku er það í verkahring forsætisráðherra að boða til kosninga, sem þurfa að fara fram í seinasta lag 17. júní er núverandi kjörtímabili lýkur. Skoðanakannanir síðustu misserin benda til þess að að bandalag vinstriflokka nái meirihluta í kosningunni og er það talin ástæða þess að Løkke, sem er formaður hægriflokksins Venstre, boðar til þeirra jafnseint og raun ber vitni.

Í ræðu sinni fór forsætisráðherrann yfir af­rek stjórn­ar­inn­ar síðasta kjör­tíma­bil. Vakti hann meðal annars at­hygli á að 10.000 ný störf hefðu orðið til í landinu. „Aldrei í sög­unni hafa jafn mörg störf orðið til,“ hef­ur danska rík­is­út­varpið DR eft­ir Løkke „Það leiðir að heil­brigðum efna­hag, það er al­veg skýrt. Það þarf jú að afla pen­ing­anna áður en maður eyðir þeim. Þessi heil­brigði efna­hag­ur þýðir að við get­um notað meira fé til sam­fé­lags­ins.“

5. júní er stjórnarskrárdagur Danmerkur (Grundlovsdagen) en á þeim degi árið 1849 fengu Danir stjórnarskrá þar sem einræði konungs var afnumið og lýðræði komið á. Dagurinn er það næsta sem Danir komast þjóðhátíðardegi en hann er þó ekki almennur frídagur, þótt oft sé veitt frí eftir hádegi.

Líkur á vinstristjórn

Sósíaldemókrötum er spáð 27,5 prósenta fylgi, litlu meira en í síðustu kosningum en Venstre, flokki Løkke, er spáð tæpum 20 prósentum, álíka og í síðustu kosningum. Helstu tíðindi úr könnunum eru þau að fylgi Danska þjóðarflokksins (DF) hrynur. Flokkurinn, sem ver ríkisstjórn Løkke falli, mælist með 12,2 prósenta fylgi, um tíu prósentustigum lægra en í kosningunum 2015.

Þá er Sósíalistaflokknum, Radikale Venstre og Einingarlistanum (Enhedslisten) öllum spáð fylgisaukningu, en flokkarnir þrír tilheyra rauðu blokkinni ásamt Sósíaldemókrötum. Samanlagt mælast flokkar rauðu blokkarinnar með 55 prósenta fylgi, og 99 þingsæti, en bláa blokk forsætisráðherrans með 44,4 prósent og 76 sæti.

Mette Frederiksen var í Álaborg á verkalýðsdeginum. Talið er líklegt …
Mette Frederiksen var í Álaborg á verkalýðsdeginum. Talið er líklegt að hún taki við sem forsætisráðherra að kosningum loknum. AFP

 

Ef fer sem horfir verður Mette Frederiksen, formaður Sósíaldemókrata, næsti forsætisráðherra Danmerkur en hún tók við formennsku af Helle Thorning-Schmidt sem lét af embætti eftir kosningaósigurinn 2015.

Frederiksen þykir íhaldssamari en forveri hennar. Hennar fyrsta verk var að breyta nafni flokksins aftur í Socialdemokratiet en flokkurinn hafði frá árinu 2002 notast við nafnið Socialdemokraterna (Sósíaldemókratar) líkt og systurflokkurinn í Svíþjóð. Þá hefur útlendingastefna flokksins orðið harðari og er það talið eiga sinn þátt í að flokkurinn hefur sótt fylgi á ný frá Þjóðarflokknum.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert