Hindra aðgerðasinna í að koma til Ísrael

Netta vann Eurovision þegar hún flutti lagið Toy í Portúgal …
Netta vann Eurovision þegar hún flutti lagið Toy í Portúgal í fyrra. AFP

Ísraelsk stjórnvöld munu stöðva alla aðgerðasinna við komu til landsins ef þeir hafa í huga að trufla Eurovision-söngvakeppnina sem fer fram í Tel Aviv um miðjan mánuðinn.

Þetta kemur fram í frétt Guardian. Þar segir að spennan vegna keppninnar magnist og gert sé ráð fyrir mótmælum vegna ástandsins á Vesturbakkanum og á Gaza. Fyrri undanúrslitin fara fram 14. maí, seinni 16. maí og úrslitin eru 18. maí.

Mannskæð átök á Gaza um helgina

Palestínsku sniðgöngusamtökin BDS (e. Boycott, Divestment and Sanctions) hafa hvatt þátttakendur til að draga sig úr keppni, ekki síst Hatara sem hafi lýst yfir stuðningi við Palestínu.

Benjamin Netanyahu.
Benjamin Netanyahu. AFP

BDS segja að Ísrael noti tónlistina til að „hvítþvo“ stefnu sína gagnvart Palestínumönnum á Vesturbakkanum og Gaza. Vopnahlé náðist milli Ísraela og Palestínumanna eftir mannskæð átök á Gaza um helgina, sem kostuðu í það minnsta 27 lífið. 

Ekkert þeirra 42 atriða sem tekur þátt í Eurovision hefur dregið sig úr keppni. Skipuleggjendur hafa hins vegar áhyggjur af því að mótmælendur nýti keppnina, sem mörg hundruð milljónir horfa á í sjónvarpi.

Vilja ekki banna fólki að koma á keppnina

„Þetta verður mikil og stór veisla sem tugir þúsunda taka þátt í. Við munum verða mjög vel á verði til að koma í veg fyrir að einhverjir komi hingað til að trufla og eyðileggja,“ sagði Emmanuel Nahshon, talsmaður utanríkisráðherra Ísraels.

„Við viljum ekki banna fólki að koma til landsins. Hins vegar ef við vitum að við erum að kljást við fólk sem eru aðgerðasinnar sem eru andsnúnir Ísrael og vilja eingöngu trufla keppnina þá munum við beita löglegum aðgerðum,“ bætti Nahshon við.

Syrgjendur í Gaza bera hér barn sem féll í árásum …
Syrgjendur í Gaza bera hér barn sem féll í árásum á laugardag. AFP

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, vildi halda keppnina í Jerúsalem sem hluta af áætlun stjórnvalda til að borgin helga myndi ná athygli heimsins sem höfuðborg Ísraels. Ísraelskar hersveitir náðu austurhluta Jerúsalem á sitt valdi árið 1967 en Palestínumenn segja að svæðið sé framtíðarhöfuðborg þeirra.

Sam­tök evr­ópskra sjón­varps­stöðva (EBU) vildu frekar að keppnin færi fram í Tel Aviv. Enn fremur hvöttu samtökin Netanyahu til að tryggja að allir gætu komið á keppnina og fengju frelsi til að tjá sig.

Keppnin á að sameina en hvetur til kúgunar

Listamenn frá Palestínu og öðrum löndum halda sniðgöngutónleika á sama tíma og úrslit Eurovision fara fram. 

„Palestínumenn sem búa á Vesturbakkanum og Gaza geta ekki farið á keppnina í Tel Aviv vegna múrsins og fleiri hluta,“ kom fram í yfirlýsingu frá BDS. Einn þeirra listamanna sem kemur fram á sniðgöngutónleikunum, sem haldnir verða á nokkrum stöðum samtímis, er 26 ára Palestínumaður.

Liðsmenn Hatara hafa skorað á forsætisráðherra Ísraels í glímu.
Liðsmenn Hatara hafa skorað á forsætisráðherra Ísraels í glímu. Ljósmynd/Eurovision.tv/Andres Putting

Bashar Murad hefur verið aðdáandi Eurovision síðan hann var krakki. „Keppnin á að sameina fólk. Hún nánast hjálpar og hvetur Ísrael til að halda kúgun og hernámi áfram,“ sagði Murad.

„Þrátt fyrir að þetta sé skemmtileg söngvakeppni er ekki hægt að líta fram hjá samhenginu hvar hún er haldin og hverja hún hefur áhrif á,“ bætti hann við.

Keppnin er haldin í sömu viku og Palestínumenn minnast Nakba, þegar meira en 700.000 Palestínumenn voru fluttir í útlegð í stríðinu þegar Ísraelsríki var stofnað fyrir 71 ári. Aðgerðasinnar segja að Expo-höllin í Tel Aviv, þar sem keppnin fer fram, hafi verið byggð á stað þar sem áður var þorp Palestínumanna sem voru reknir burt af heimilium sínum í Nakba.

Syrgjendur jarðsetja Palestínumann sem féll í árásum helgarinnar á Gaza.
Syrgjendur jarðsetja Palestínumann sem féll í árásum helgarinnar á Gaza. AFP

Söngkonan Netta Barzilai, sem vann Eurovision í fyrra, hefur fordæmt þá sem hvetja til sniðgöngu keppninnar í ár. Hún sagði keppnina snúast um gleði og þeir sem hvetji til sniðgöngu dreifi myrkri og illsku.

Fram kemur í frétt Guardian að keppendur í ár hafi forðast að tjá sig um ástandið. Þó hafi hljómsveitin Hatari skorað á Netanyahu í glímu daginn eftir úrslit keppninnar. Sigri Hatara-liðar glímuna fái þeir að stofna BDSM-fríríki innan landamæra Ísraels.

Frétt Guardian.

mbl.is