„Þessu verður að ljúka“

Pamela Anderson og Kristinn Hrafnsson fyrir utan öryggisfangelsið þar sem …
Pamela Anderson og Kristinn Hrafnsson fyrir utan öryggisfangelsið þar sem Assange afplánar nú dóm sinn. Skjáskot/Facebook-síða Ruptly

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, og leikkonan Pamela Anderson voru í dag fyrstu gestir sem Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, hefur fengið eftir að hann var fluttur í öryggisfangelsi í Lundúnum.

Mánuður er frá því Assange var handtekinn í sendiráði Ekvador í borginni og var hann í síðustu viku dæmdur í 50 vikna fangelsi fyrir að brjóta reglur varðandi reynslulausn sína í Bretlandi fyrir sjö árum. Bandarísk stjórnvöld hafa einnig farið fram á að fá hann framseldan fyrir að hafa framið samsæri um tölvuinnbrot ásamt uppljóstraranum Chelsea Manning árið 2010.

„Ég held að ég tali fyrir okkur bæði, þegar ég segi að við séum í tilfinningalegu uppnámi eftir þessa fyrstu heimsókn sem Julian hefur verið leyft að fá eftir að hafa verið hér inni í mánuð,“ sagði Kristinn eftir heimsóknina.

Ruptly-fréttavefurinn birti á Facebook-síðu sinni viðtal við þau Kristin og Anderson fyrir utan fangelsið.

„Hvað mig varðar er áfall að sjá vin minn, gáfumenni, útgefanda og blaðamann sem hefur umbreytt fjölmiðlaheiminum með verkum sínum. Að sjá hann sitja í öryggisfangelsi og dvelja þar í fangaklefa 23 tíma á sólarhring og fá að vera utandyra hálftíma á dag, ef veður leyfir og hafa hálftíma til viðbótar til að gera allt annað, það er ekki réttlæti,“ sagði Kristinn og bætti við: „Þetta er viðurstyggð.“

Heimsókn í öryggisfangelsið bæri bresku samfélagi ekki gott vitni.

„Þessu verður að ljúka,“ sagði hann. „Þetta verður barátta, en ég get sagt að Julian Assange er beygður en ekki brotinn. Hann er mjög úrræðagóður maður og ég vil að þið hugsið til þess að slík seigla kemur frá því að hann veit að hann er saklaus og hefur ekkert gert af sér. Hann veit að hann sætir ofsóknum fyrir það eitt að sinna blaðamennsku.“

Pamela bætti við að erfitt hefði verið að sjá Assange í fangelsinu. „Hann á ekki skilið að vera í öryggisfangelsi því hann hefur aldrei gerst sekur um ofbeldisbrot. Hann er saklaus.“ Sagði hún Assange hvorki hafa aðgang að bókasafni né tölvu. Hann væri einangraður frá umheiminum og hafi til að mynda ekki geta talað við börnin sín. „Hann þarf allan þann stuðning sem hann getur fengið. Hann er góður maður og ótrúleg manneskja, sem mér þykir vænt um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert