115. skotárásin í ár

Átján ára ungmenni lést og sjö ungmenni eru særð eftir skotárás í STEM Highlands Ranch-skólanum skammt frá Denver í Colarado í gær. Tveir nemendur skólans bera ábyrgð á árásinni og eru þeir í haldi lögreglu. Þetta kemur fram í frétt New York Times. Hluti þeirra nemenda sem særðust eru mjög alvarlega særðir.

Highlands Ranch er skammt frá Columbine-menntaskólanum en stutt er síðan þess var minnst að 20 ár eru liðin frá árásinni þar. Árásin í gærkvöldi er skotárás númer 115 það sem af er ári í Bandaríkjunum, að því er fram kemur í frétt BBC.

Rétt fyrir klukkan 14 að staðartíma, klukkan 20 að íslenskum tíma, gengu árásarmennirnir inn í skólann og hófu árásina. Annar þeirra er á barnsaldri en hinn er eldri en 18 ára. 

Skrifstofa lögreglustjóra hefur upplýst um hver annar árásarmaðurinn er, Devon Erickson, 18 ára. Lögregla hefur girt af heimili hans en að sögn nágranna hefur Erickson-fjölskyldan búið þar síðan seint á tíunda áratugnum. Nágranni segir í samtali við NYT að Devon sé afar rólegur og hlédrægur ungur maður sem spilar á ýmis hljóðfæri.

AFP

Samkvæmt BBC er 17 ára gamall sonur Fernando Montoya meðal þeirra sem særðust í árásinni. Montoya hefur eftir syni sínum að árásarmaðurinn hafi tekið byssu upp úr gítartösku sinni og hafið að skjóta. 

Talsmaður forseta Bandaríkjanna, Judd Deere, segir að Donald Trump hafi verið upplýstur um árásina og hann hafi fylgst grannt með. 

Lögregla fyrir utan heimili annars árásarmannsins.
Lögregla fyrir utan heimili annars árásarmannsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert