„Guð minn góður við erum komin í aðra dýfu“

MCAS-kerfið tók yfir og ýtti vélinni niður í 40 gráðu …
MCAS-kerfið tók yfir og ýtti vélinni niður í 40 gráðu halla. Skjáskot/60 minutes Australia

„Og þú horfir út um gluggann og guð minn góður - við erum komin í aðra dýfu. [...] Þetta er forritað þannig - tíu sekúndur í gangi og fimm sekúndur slökkt. Og við vitum það ekki, okkur flugmönnum var aldrei sagt frá þessu. Það var hvergi minnst á þetta í handbókinni,“ sagði Chris Brady, flugmaður með mikla reynslu á Boeing 737, í fréttaskýringarþætti 60 minutes Australia.

Í þættinum er fjallað um farþegaþotuna Boeing 737-MAX sem kyrrsett hefur verið um heim allan í kjölfar þess að tvær vélar af tegundinni fórust með nokkurra mánaða millibili í Eþíópíu og á Jövu-hafi með þeim afleiðingum að 346 manns létu lífið. Báðar féllu vélarnar til jarðar fáeinum mínútum eftir flugtak með litlum sem engum fyrirvara.

Meðal þeirra sem rætt er við í þættinum eru fyrrverandi starfsmenn Boeing, nú vitni í sakamálarannsókn bandarísku alríkislögreglunnar (FBI), bandarískir og evrópskir 737-flugmenn og aðstandendur látinna. Er margt sem bendir til þess að Boeing hafi hraðað MAX-vélunum á markað vegna mikillar samkeppni við flugvélaframleiðandann Airbus í Evrópu.

40 gráðu halli í 10 sekúndur

Í ummælum sínum vísar flugmaðurinn Chris Brady til virkni svonefnds MCAS-búnaðar sem á að koma í veg fyrir að 737 MAX ofrísi. Gerir hann það með því að beina flugvélinni niður á við, en kastljósið hefur verið á þeim búnaði sem meginástæðu þess að MAX-vélarnar tvær fórust. Líkt og Brady benti á vissu flugmenn ekki af þessum búnaði.

Í þættinum kemur fram að þegar búnaðurinn virkjast beinir hann vélinni niður í 40 gráðu halla í 10 sekúndur. Þá taka við 5 sekúndur sem flugmenn hafa til að bregðast við áður en tölvubúnaðurinn tekur við stjórn á nýjan leik. Bent er á í þættinum að báðar vélar höfðu nýlega tekið á loft þegar MCAS-kerfið tók yfir og var flughæð því ekki mikil. 

Áttu að spara og flýta sér

Blaðamaðurinn Dominic Gates hjá Seattle Times, sem fjallar um flugmál, segir stjórnendur Boeing hafa stressast mjög þegar þeir fréttu af stórri Airbus-pöntun American Airlines árið 2011. 

„Í júlí 2011 fréttu stjórnendur Boeing af því að American Airlines væri að fara að panta 200 A-320 Neo-vélar og uppi varð algjört stjórnleysi hér í Seattle,“ sagði hann við 60 minutes. „Á þeim tíma höfðu þeir ekki MAX eða áætlun, en þá og þegar sögðu þeir: Allt í lagi, við setjum nýja hreyfla á 737 ef við fáum helminginn af þessari pöntun. Og American [Airlines] sagði já.“

„Við vorum undir þeim þrýstingi að draga úr öllum breytingum til að minnka kostnað og klára þetta sem fyrst,“ er haft eftir manni sem sagður er hafa unnið fyrir Boeing á þessum tíma. Hann gegnir nú stöðu vitnis í rannsókn FBI. Hann segir áherslu hafa verið lagða á að ekki þyrfti að þjálfa flugmenn sérstaklega fyrir Boeing 737 MAX. Átti það að vera hluti af því að selja flugfélögum vélina. „Við hefðum getað uppfært þessa vél frekar en þessi áhersla félagsins kom í veg fyrir það.“

Þá kemur fram að hin rúmlega 50 ára gamla hönnun Boeing 737 hafi ekki hentað nýjum og sparneytnari þotuhreyflum. Þeir hafi verið of stórir. Hreyflarnir voru því færðir en því fylgdi nýr vandi - vélin átti þá til að lyfta nefi sínu á flugi, einkum þegar flughraði var lítill, með tilheyrandi hættu á ofrisi. Var því gripið til þess ráðs að koma áðurnefndum MCAS-búnaði fyrir í MAX-vélunum.

Þá segir þessi sami heimildarmaður Boeing ekki hafa haft fullnægjandi skilning á virkni MCAS-kerfisins áður en það var sett í vélarnar.

Þátt 60 minutes Australia má sjá hér:

mbl.is