Bjóða Ísraelum á Eurovision

Eurovision-keppnin er fyrirferðamikil í Tel Aviv.
Eurovision-keppnin er fyrirferðamikil í Tel Aviv. AFP

Ísraelum sem búa í suðurhluta landsins verður boðið á undankvöld Eurovision-keppninnar á þriðjudag og æfingar í aðdraganda keppninnar. Ísraelska ríkisútvarpið KAN greindi frá þessu í dag.

Allir sem búa í 40 kílómetra fjarlægð frá Gaza geta nálgast miða en í tilkynningu frá KAN kemur fram að ætlunin sé að sýna íbúunum stuðning eftir harðar loftskeytaárásir um síðustu helgi.

Í frétt Jerusalem Post kemur fram að einnig sé gott fyrir KAN að reyna að fylla höllina en þrátt fyrir að uppselt sé á úrslitakvöldið 18. maí eru enn um 2000 miðar til sölu á undankvöldið á þriðjudag.

Auk þess er fjöldi miða óseldur á æfingar fyrir undankvöldin. Staðan er sögð fordæmalaus í sögu keppninnar, samkvæmt sérfræðingum.

Alls féllu 29 manns í átökum helgarinnar, sem eru þau hörðustu í áraraðir. 25 Palestínumenn og fjórir Ísraelar létust en samið var um vopnahlé á mánudag.

mbl.is