Auka viðbúnað við Persaflóa

Hermenn sjást hér fara yfir Patriot-eldflaugavarnarkerfi í Tyrklandi fyrir nokkrum …
Hermenn sjást hér fara yfir Patriot-eldflaugavarnarkerfi í Tyrklandi fyrir nokkrum árum. AFP

Bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að senda Patriot-eldflaugavarnarkerfi til Miðausturlanda vegna aukinnar spennu sem ríkir vegna Írans. Þá mun bandaríska herskipið USS Arlington taka sér viðbragðsstöðu við hlið USS Abraham Lincoln í Persaflóa.

Greint er frá þessu á vef breska ríkisútvarpsins. 

Að sögn bandaríska varnarmálaráðuneytisins eru sprengjuflugvélar af gerðinni B-52 nú komnar á herstöð í Katar. 

Stjórnvöld í Bandaríkjunum segja að þetta sé gert til að mæta mögulegri ógn Írana gegn bandarískum hersveitum á svæðinu. Þetta var hins vegar ekki útskýrt með nákvæmari hætti. Stjórnvöld í Íran vísa þessu á bug. Segja slíkar ásakanir vitleysu. 

Írönsk stjórnvöld segja að þessi aukni viðbúnaður á svæðinu sé ekkert annað en sálrænt stríð sem ætlað er að ögra landi og þjóð.

Nú þegar eru um 5.200 bandarískir hermenn í Írak, sem er nágrannaríki Írans. 

mbl.is