SÞ staðfesta brotthvarf uppreisnarmanna

Uppreisnarmenn Húta í hafnarborginni Hodeidah rétt áður en þeir eru …
Uppreisnarmenn Húta í hafnarborginni Hodeidah rétt áður en þeir eru sagðir hafa afhent strandgæslu Jemen stjórnartaumana í borginni. AFP

Sameinuðu þjóðirnar hafa staðfest að uppreisnarmenn Húta í Jemen séu á förum frá þremur hafnarborgum við Rauða hafið. Þetta segir Farhan Haq, talsmaður Sameinuðu þjóðanna, við AFP fréttastofuna. Stuðningsmenn stjórnarhersins hafa hins vegar sumar sagt brotthvarfið vera plat.

Í morgun var greint frá því að uppreisnarmennirnir væru að undirbúa sig undir það að yfirgefa borgirnar, líkt og stjórnarhersveitirnar. Með þessu átti að vera hægt að flytja nauðsynleg hjálpargögn í gegnum borgina Hudaydah og er þetta talið stærsta skrefið sem stríðandi fylkingar hafi stigið frá því að samkomulag um vopnahlé var undirritað í desember.

Heimildarmenn AFP fréttastofnunnar sem tengjast Hútum segja að hafnarborgirnar verði afhentar strandgæslunni, sem hafi yfirumsjón með borgunum áður en uppreisnarmenn tóku þar völdin.

Borgarstjóri Hodeida, helstu hafnarborg landsins og einnar af þeim þremur sem uppreisnarmenn eru sagðir hafa afhent, Al-Hasan Taher, segir hins vegar að Hútar séu aðeins að færa til mannskap og séu í raun að afhenda sjálfum sér borgirnar á ný. Hafnaði hann þessum tilfæringum og sagði þær plat.

Hodeida er aðalhafnarborg Jemen og þar fer um meirihluti af innflutningi til landsins. Er höfnin sú mikilvægasta til að tryggja innflutning hjálpargagna sem myndu gagnast milljónum íbúa landsins, en fjögur ár af stríði hafa orsakað það að landið er á barmi hungursneiðar.

Liðsmenn strandgæslunnar tilbúnir að taka við völdum í borginni.
Liðsmenn strandgæslunnar tilbúnir að taka við völdum í borginni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert