Ákvörðunar saksóknara að vænta í dag

Julian Assange.
Julian Assange. AFP

Ríkissaksóknari Svíþjóðar mun greina frá því í dag hvort rannsókn á meintum nauðgunum stofnanda Wikileaks, Julian Assange, í Svíþjóð fyrir sjö árum verði tekin upp að nýju. Lögmaður konunnar sem kærði Assange á sínum tíma hefur óskað eftir því fyrir hennar hönd.

Í frétt BBC kemur fram að Eva-Marie Persson, aðstoðarsaksóknari Svíþjóðar, muni greina frá ákvörðun embættisins síðar í dag. 

Assange, sem neitar sök, hefur komist hjá framsali til Svíþjóðar í sjö ár með því að halda til í sendiráði Ekvador í London frá árinu 2012. Í síðasta mánuði afturkölluðu stjórnvöld í Ekvador pólitískt hæli hans og í kjölfarið var hann handtekinn af bresku lögreglunni og dæmdur í 50 vikna fangelsi fyrir að brjóta skilorð. 

Bandarísk yfirvöld hafa óskað eftir því að Assange verði framseldur frá Bretlandi fyrir meinta hlutdeild í því að upplýsa um hernaðarlega mikilvæg gögn árið 2010. 

Fallið var frá rannsókn á nauðgunarkæru á hendur Assange í Svíþjóð fyrir tveimur árum en saksóknari sagði á þeim tíma að embættið teldi að ekki væri hægt að fara með málið fyrir dóm á meðan Assange héldi sig í sendiráði Ekvador. Konan sem sakaði Assange um ofbeldið hefur aftur á móti óskað eftir því að málið verði tekið upp að nýju. 

Samkvæmt hegningarlögum Svía rennur tímafrestur til að ákæra Assange út á næsta ári. Ef málið verður rannsakað að nýju er líklegt, samkvæmt BBC, að upp komi sú spurning hvort framsalskrafa Svía eða Bandaríkjanna taki gildi fyrr. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert