Ráðist á norskt tankskip

Mynd sem tekin var í dag af norska tankskipinu Andrea …
Mynd sem tekin var í dag af norska tankskipinu Andrea Victory eftir að óþekktum hlut var siglt eða skotið á það nærri hafnarborginni Fujairah við Oman-flóann í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í gær. Tjónið á skipinu sést á myndinni neðar í fréttinni. Tvö önnur tankskip urðu einnig fyrir árásum og krefjast stjórnvöld í Íran rannsóknar. Ljósmynd/AFP

„Þetta er eina skipið með norsku skráningarnúmeri [IMO-númeri] sem okkur er kunnugt um að hafi lent í þessu atviki,“ segir Christine Korme, upplýsingafulltrúi Samtaka útgerða (n. Rederiforbundet) í Noregi, við norska dagblaðið VG í dag eftir að norska olíutankskipið Andrea Victory varð fyrir árás á Oman-flóanum í gær með þeim hætti að óþekktum hlut var siglt eða skotið á skut skipsins svo vel sér á því.

Andrea Victory er í eigu útgerðarinnar Champion Tankers AS í Bergen og vegur 47.000 dauðvigtartonn (n. dødvekttonn). Skipið kom til hafnarborgarinnar Fujairah í Sameinuðu arabísku furstadæmunum á laugardaginn og var atlagan að því gerð degi síðar. Útgerðin í Noregi skýrði frá þessu í fréttatilkynningu í dag en vill ekki tjá sig nánar um málið.

Áhöfnin óhult

Rekstur Andrea Victory er í höndum útgerðarinnar Thome Ship Management en skipið á sér heimahöfn á Isle of Man. Talsmaður þeirrar útgerðar, sem VG ræðir við, segir áhöfnina óhulta og ástandið um borð öruggt. Lagið kom á skipsskrokkinn þar sem tómur tankur var fyrir innan og skaðinn því minni en hefði getað orðið.

Yfirvöld í Sádi-Arabíu greina frá því að tvö önnur olíuskip hafi orðið fyrir árásum úti fyrir ströndum Sameinuðu arabísku furstadæmanna á sama tíma en ekki hefur fengist staðfest hverjar skemmdir voru unnar þar né hvers kyns árásirnar voru.

Andrea Victory, norskt olíuskip í eigu útgerðar í Bergen en …
Andrea Victory, norskt olíuskip í eigu útgerðar í Bergen en með heimahöfn á Isle of Man. Ljósmynd/AFP

Norska siglingamálastofnunin (n. Sjøfartsdirektoratet) hefur sent frá sér tilkynningu þar sem hún hvetur áhafnir allra norskra skipa á Oman-flóanum til að hafa varann á eftir atburðina. Áhöfn Andrea Victory aðstoðar nú lögreglu í Fujairah við rannsókn málsins og hafa yfirvöld í Íran auk þess farið fram á rannsókn eftir árásirnar á olíuskipin þrjú.

„Við hækkum nú viðbúnaðarstigið fyrir norsk skip á svæði sem nær til umhverfis þessarar hafnarborgar [Fujairah] á flóanum og biðjum áhafnir þeirra að gæta fyllsta öryggis á næstunni. Okkur er ekki kunnugt um hvort hættan er yfirstaðin eða enn viðvarandi,“ segir Dag Inge Aarhus, upplýsingafulltrúi siglingamálastofnunarinnar, við VG í dag.

NRK

Dagbladet

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert