Ætla ekki í stríð við Íran

Mike Pompeo í Rússlandi í dag.
Mike Pompeo í Rússlandi í dag. AFP

Michael Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir þjóð sína ekki vilja fara í stríð við Íran, þrátt fyrir aukna spennu í samskiptum landanna.

„Við viljum ekki fara í stríð við Íran,“ sagði Pompeo á blaðamannafundi eftir fund með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í borginni Sochi.

„Við höfum einnig gert Írönum það ljóst að ef hagsmunum Bandaríkjanna verður ógnað, munum við bregðast við á viðeigandi hátt,“ bætti hann við og kvaðst vona að Íran „hegði sér eins og venjulegt land“.

Pompeo hitti einnig Vladimir Pútín, forseta Rússlands. Sagðist Pútín vilja „endurvekja að fullu“ þau tengsl sem hafi rofnað á milli bandarískra og rússneskra stjórnvalda.

Mike Pompeo og Pútín.
Mike Pompeo og Pútín. AFP
mbl.is