Kexerfingi veldur fjaðrafoki

Bashlen-smjörkex.
Bashlen-smjörkex.

Erfingi þýsku Bashlen-kexsmiðjunnar hefur valdið fjaðrafoki í heimalandinu í kjölfar þess að hún fullyrti að fyrirtækið hefði komið vel fram við fólk sem var þvingað til starfa á meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð.

Verena Bahlsen er 25 ára gömul og á fjórðung í fyrirtækinu, en hún varð fyrst umdeild fyrir ummæli sín þess efnis að hún væri kapítalisti „sem vildi eignast pening og kaupa snekkjur fyrir gróðann“.

Eftir að hún lét ummælin falla var hún minnt á að fyrirtækið hafi grætt á nauðungarvinnu í stjórnartíð Adolfs Hitler nasistaforingja. Bashlen var ekki sátt við gagnrýnina og svaraði fyrir sig.

„Það var fyrir minn tíma og við borguðum starfsfólki í nauðungarvinnu jafn mikið og Þjóðverjum og komum vel fram við það,“ sagði hún í samtalið við dagblaðið Bild. Þau ummæli fóru hins vegar einnig öfugt ofan í marga Þjóðverja og vakti Skráningarsetur nauðungarvinnu nasista í Berlín athygli á því hve lítil almannavitund væri á málefninu og bauð almenningi á sýningu sína.

Á samfélagsmiðlum hefur meðal annars verið kallað eftir sniðgöngu á vörum frá Bashlen og þá gagnrýndi ritari þýska Sósíaldemókrataflokksins Bahren harðlega. „Þeir sem erfa svo mikil auðæfi erfa líka ábyrgð og ættu ekki að vera svo hrokafullir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert