Á tindi Everest í 23. skiptið

AFP

Fyrir flesta, sem það reyna, er alveg nóg að standa á toppi Everest einu sinni á ævinni og í raun eru það afar fáir sem upplifa það. En Kami Rita, sem starfar sem leiðsögumaður í Nepal, stóð á tindi Everest í 23. skiptið í dag. Þar með toppaði hann fyrra met en það setti Kami Rita í fyrra.

Kami Rita, sem er 49 ára að aldri, hefur unnið sem fararstjóri í meira en tvo áratugi og fór fyrst á tind Everest árið 1994. 

„Ég geri þetta ekki til þess að slá heimsmet. Ég er bara í vinnunni. Ég vissi ekki einu sinni að hægt væri að setja slík met,“ sagði hann í síðasta mánuði þegar hann lagði af stað í grunnbúðir Everest.  

Kami Rita hefur farið á topp Everest í 23 skipti.
Kami Rita hefur farið á topp Everest í 23 skipti. AFP

En hann hefur ekki bara klifið hæsta fjall heims því hann hefur einnig staðið á tindi næsthæsta fjallsins, K2.

Aldrei hafa verið gefin út jafn mörg leyfi fyrir ferðum á Everest í Nepal í ár en alls eru leyfin 378 talsins en hvert þeirra kostar 11 þúsund Bandaríkjadali, tæplega 1,4 milljónir króna. Flestir fara upp að vori og er talið að um 750 manns feti stíga fjallsins þetta vor þar sem flestir eru með serpa, líkt og Kami Rita, sem aðstoðarmenn við uppgönguna. 

Síðan eru að minnsta kosti 140 að undirbúa ferð á Everest Tíbet-megin. Það er norðurhlið Everest sem er mun erfiðari. Alls náðu 807 á tind Everest í fyrra og var það nýtt met. 

mbl.is