Drottnari drepinn með lásboga

AFP

Maðurinn sem var drepinn með lásboga á hóteli í Norður-Þýskalandi um síðustu helgi var leiðtogi safnaðar sem helgaði sig miðaldafræðum og leit á konur í kringum sig sem þræla sína. Þetta kemur fram í þýskum fjölmiðlum í dag en þar eru leiddar líkur að því að eitt þeirra sem fundust látin í herberginu hafi drepið tvö þeirra og síðan framið sjálfsvíg.

Maðurinn, Torsten W., sem var 53 ára gamall, fannst látinn í hjónarúmi herbergisins ásamt Kerstin E., sem var 33 ára gömul. Á gólfinu fyrir framan rúmið fannst lík Farinu C, sem var þrítug að aldri. Er nú talið að hún hafi myrt parið í rúminu og síðan framið sjálfsvíg. Allt með lásboga. Á mánudag fundust tvö lík kvenna í íbúð Farinu C í Wittingen en önnur þeirra var unnusta Farinu, 35 ára kennari við grunnskóla, Gertrud C. Það eina sem lögreglan hefur upplýst um hina konuna er að hún var 19 ára gömul. 

Bæði Bild og RTL segja að Torsten hafi stjórnað konunum fjórum með harðri hendi og bæði beitt líkamlegu valdi og þvingað þær andlega til þess að stjórna þeim. Sjónvarpsstöðin RTL hefur það eftir heimildum að rannsóknarlögreglan telji að þau hafi öll tilheyrt kynlífshring með áherslu á miðaldir. Torsten W hafi verið leiðtogi hópsins.

Samkvæmt frétt Bild var Torsten í sambandi við nokkrar konur sem hann drottnaði yfir. Hann átti verslun sem seldi vopn og fána tengt miðöldum. Kenndi sverðaburð og var með gínur kvenna sem voru klæddar sokkaböndum, bundnar með reipum og keðjum og ataðar rauðri málningu.

RTL ræddi við hjón sem óttast að 19 ára gömul dóttir þeirra, Carina U, sé stúlkan sem fannst látin í íbúð Farinu. Carina hafi verið þræll Torsteins um tíma og slitið öllu sambandi við fjölskyldu sína. Hún hafi kynnst honum í gegnum bardagalistakennslu og fljótlega breyst úr glaðværum unglingi í dapran og fjarlægan ungling sem fór að heiman allt of ung. 

Bild birti í dag viðtal við fyrrverandi leigusala Torsteins sem lýsir því hvernig hann hafi drottnað yfir ungu konunum sem bjuggu hjá honum og farið með þær eins og þræla sína. 

mbl.is