Kvikmynd um voðaverkin í Christchurch

Gestir Al Noor moskunnar ganga til bæna eftir að hún …
Gestir Al Noor moskunnar ganga til bæna eftir að hún opnaði að nýju eftir árásina þar 15. mars síðastliðinn. Alls lést 51 í árásunum. AFP

Sæll bróðir eða Hello Brother nefnist kvikmynd um byggir á árásunum á tvær moskur í borginni Christchurch í Nýja-Sjálandi þar sem 51 lét lífið í mars. Framleiðandi myndarinnar Moez Masoud greindi frá þessu fyrirhugaða verkefni sínu á kvikmyndahátíðinni í Cannes við tímaritið Variety.   

Heiti kvikmyndarinnar er fengið frá einu fórnarlambi árásarmannsins, Brent­on Tarr­ant, sem skaut fólk sem var samankomið í moskunum til bæna. Maðurinn sem lést var gamall maður frá Afganistan og heilsaði Tarrant vingjarnlega þegar hann mætti í Al Noor moskuna til að myrða fólk.  

Í myndinni verður afganskri fjölskyldu fylgt eftir frá því hún flýr ástandið í heimalandi sínu í öryggið í Christchurch til þess eins að verða blóðbaðinu að bráð. 

„Hinn 15. mars í Christchurch varð heimurinn vitni að hrikalegum glæp gegn mannkyninu. Sagan, Hello Brother, er einn þáttur í bataferlinu og er til þess gerð að við getum skilið þetta betur; hvort annað, rætur illskunnar, kynþáttfordómana og hryðjuverk,“ sagði Masoud við tímaritið. 

Nú þegar er hluti teymisins mætt til borgarinnar Christchurch til að safna efni og meðal annars ræða við þá sem komust lífs af.  

Hann greindi frá fyrirhugaðir kvikmynd einungis tveimur mánuðum eftir blóðbaðið. Samtök múslima í Canterbury segjast ekki hafa verið greint frá því að kvikmynd um voðaverkin væru í vinnslu. 

„Við höfum hvorki fengið neina ósk né höfum við samþykkt slíkt.“ Þetta segir meðal annars á Facebook-síðu samtakanna. Hins vegar er greint frá því að maður hafi heimsótt moskuna síðastliðinn þriðjudag og viðrað „óljósar hugmyndir“ um að taka upp kvikmynd þar. Einnig er bent á að samtökin geti ekki stöðvað kvikmyndaframleiðendur en benda vinsamlegast á að aðgát skal höfð í nærveru sálar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert