Neyddist til að sarga af sér fótlegginn

Vasahnífar af hinum ýmsu gerðum.
Vasahnífar af hinum ýmsu gerðum. Ljósmynd/Wikipedia.org

Bóndi á sjötugsaldri neyddist til að saga af sér fótinn með vasahníf þegar fótleggur hans sogaðist niður í og festist í skrúfu við fóðursíló. Eftir að hann sargaði sig lausan þurfti hann að skríða nokkra metra til að hringja á hjálp því hann fann ekki símann sinn. Atvikið átti sér stað í Nebraska í Bandaríkjunum. BBC greinir frá.  

„Ég hafði ekkert annað val,“ sagði hann við ABC-fréttastofuna. Sonur hans svaraði kalli hans og keyrði hann á næsta sjúkrahús. Þaðan var flogið með Kurt Kaser sem er 63 ára gamall með þyrlu á sjúkahúsið í borginni Lincoln. Þar gekkst hann undir aðgerð en lærleggur og hné er óskaddað. 



„Beinið skagaði út úr fótleggnum á mér,“ sagði hann við Omaha World-Herald. Þegar hann sá fótinn tætast upp ákvað hann að grípa til sinna ráða og dró upp hnífinn. Hnífsblað vasahnífsins er tæpir átta sentimetrar á lengd.

Kaser var einn að færa til fóður á bóndabæ sínum 19. apríl síðstaliðinn en jörðin er um 600 hektarar að stærð. Um veturinn hafði hann tekið öryggishlífina af skrúfunni því hún var biluð og láðist að gera við hana.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert