Ótrúlegt samspil ljóss og lita

Ein af heysátum Claude Monet var seld á uppboði í …
Ein af heysátum Claude Monet var seld á uppboði í New York í gærkvöldi. AFP

Málverk Claude Monet úr rómaðri myndröð hans af heysátum (Meules) var selt á 110,7 milljónir Bandaríkjadala, sem svarar til 13,6 milljarða króna, á uppboði hjá Sotheby's í New York í gærkvöldi.

Þetta er hæsta verð sem fengist hefur fyrir verk eftir franska impressjónistann en árið 2016 var annað verk úr myndröðinni selt á 81,4 milljónir dala. Málverkið sem var selt í gær kom fyrst á markað árið 1986 og er nú komið í hóp þeirra tíu verka sem hafa verið seld á hæsta verði á myndlistaruppboðum í heiminum. Kaupandinn, hver sem hann er, greiddi 44 sinnum meira fyrir verkið heldur en síðasti kaupandi greiddi. Þetta er í fyrsta skipti sem málverk impressjónista fer yfir 100 milljónir dala á uppboði.

Monet málaði 25 heysátumyndir veturinn 1890-1891 á heimili sínu í Giverny í Normandí-héraði. Í hverju verki birtir Monet mynd af heysátu og áhrif ljóss og lita. Hver mynd speglar ólík áhrif ljóss á umhverfið, allt eftir því um hvaða tíma dagsins og árstíð er að ræða. 

Myndin sem var seld í gær sker sig í raun úr þessari myndröð vegna þess hversu mögnuð litbrigði hennar eru og pensilstrokurnar - hvernig þær mætast í miðju verksins á einstakan hátt á sama tíma og aðeins hluti fremstu heysátunnar sést á myndinni sjálfri. 

Eða eins og sérfræðingur Sotheby's, Julian Dawes, segir: „Það er töfrum líkast og þú getur einfaldlega ekki haft augun af verkinu.“

Dawes segir að það sé samróma álit þeirra sem til þekkja að þetta verk sé jafnvel enn stórkostlegra en það sem var selt árið 2016. 

Málverk Monet af vatnaliljum, Nymphéas en fleur, var selt á 84,6 milljónir Bandaríkjadala í maí í fyrra. 

mbl.is