Vörpuðu tölvugerðum sprengjum í Tel Aviv

Tölvuárásin hafði engin áhrif á sjónvarpsútsendingu Kan frá undanúrslitakvöldinu.
Tölvuárásin hafði engin áhrif á sjónvarpsútsendingu Kan frá undanúrslitakvöldinu. AFP

Tölvuþrjótar trufluðu beina vefútsendingu af undanúrslitakvöldi Eurovision í Ísrael í gærkvöldi og létu líta út fyrir að verið væri að varpa sprengjum á Tel Aviv.

Áhorfendum birtist viðvörun þess efnis að verið væri að gera árás í borginni, auk þess sem falsað myndskeið af árás var birt ásamt sírenu- og sprengihljóðum.

Samkvæmt frétt BBC kennir ísraelska ríkissjónvarpið, Kan, Hamas-samtökunum um truflunina, en samtökin hafa ekki lýst yfir ábyrgð á henni. 

AFP

Tölvuárásin hafði engin áhrif á sjónvarpsútsendingu Kan frá undanúrslitakvöldinu, en varði í um tíu mínútur í netútsendingunni. Þar birtist texti þar sem varað var við hættu vegna loftárása og sýnd voru fölsuð myndskeið af sprengingum nærri Expo-höllinni þar sem keppnin fer fram.

Ísraelski herinn tilkynnti síðast um tölvuárás, sem þeir sögðu af völdum Hamas-samtakanna, 5. maí og gerðu í kjölfarið loftárás á byggingu á Gaza þar sem talið var að tölvuþrjótarnir væru að verki. Sú árás átti sér stað í stigvaxandi átökum Ísraels- og Palestínumanna þar sem yfir þúsund sprengjum var varpað og 25 Palestínumenn og fjórir Ísraelsmenn létu lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert