Fulltrúar Maduro og Guaidó ræða saman í Ósló

Hermenn á vakt utan við þinghúsið í Venesúela. Fulltrúar stjórnar- …
Hermenn á vakt utan við þinghúsið í Venesúela. Fulltrúar stjórnar- og stjórnarandstöðu taka nú þátt í friðarviðræðum í Osló. AFP

Fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu Venesúela taka nú þátt í „friðarviðræðum“ í Ósló, að því er norskir fjölmiðlar greina frá.

Mikill pólitískur órói hefur verið í landinu undanfarna mánuði, eða frá því Juan Guaidó, þingforseti og leiðtogi stjórnarandstöðunnar, lýsti sig starfandi forseta. Guaidó hafði áður dregið í efa lögmæti kosninganna þar sem Nicholas Maduro var endurkjörinn forseti. Mikil efnahagskreppa hefur ríkt í Venesúela um nokkurra ára skeið og kenna ýmsir forsetanum um.

Norska ríkisútvarpið NRK hefur eftir ónafngreindum heimildamönnum að friðarviðræður hafi átt sér stað á leynilegum stað í Ósló um nokkurra daga skeið og að búist sé við að viðræðunum ljúki í dag.

Sagði heimildamaðurinn þetta vera í annað skipti sem slíkar viðræður hafi átt sér stað í Ósló milli stjórnar Maduros og fulltrúa Guaidós. Eins eru deiluaðilar sagðir hafa ræðst við á Kúbu.

„Við getum hvorki staðfest né neitað þátttöku Noregs í friðarferli né samræðum,“ sagði Ane Haavardsdatter Lunde talskona norska utanríkisráðuneytisins í samtali við AFP-fréttaveituna.

Eru Jorge Rodriguez, samskiptaráðherra Venesúelastjórnar og héraðsstjóri Miranda, Hector Rodriguez, sagðir vera fulltrúar stjórnar Maduros í Noregi. Fyrir stjórnarandstöðuna eru hins vegar á staðnum fyrrverandi þingmaðurinn Gerardo Blyde, fyrrverandi ráðherrann Fernando Martinez Mottola Stalin Gonzales, varaforseti þingsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert