Kanínan seldist á 11,2 milljarða

Kanínan er nú dýrasta verkið eftir núlifandi listamann.
Kanínan er nú dýrasta verkið eftir núlifandi listamann. AFP

Skúlptúr eftir bandaríska listamanninn Jeff Koons var seldur á 91,1 milljón Bandaríkjadala, sem svarar til 11,2 milljarða króna, á uppboði hjá Christie's í New York í gærkvöldi. Aldrei áður hefur fengist jafn há fjárhæð fyrir verk núlifandi listamanns.

Verkið, Kanína, afsteypa af uppblásinni kanínu úr ryðfríu stáli var það verk sem vitað var fyrir fram að færi fyrir háa fjárhæð ef það seldist. Verk Koons hafa selst fyrir háar fjárhæðir undanfarin ár en fyrir sex árum seldist blöðruhundur hans, Balloon Dog (Orange), á 58,4 milljónir dala og í fimm ár var það hæsta verð sem greitt hafði verið fyrir verk eftir núlifandi listamann. Það met féll hins vegar í nóvember í fyrra þegar málverk breska myndlistarmannsins, David Hockney, Portrait of an Artist (Pool with Two Figures), var selt á uppboði hjá Christie's á 90,3 milljónir dala. 

Kanínan var seld á 80 milljónir dala en þegar þóknun og gjöld bætast við er endanlegt verð listaverksins 91,075 milljónir dala. Ólíkt því sem yfirleitt gerist í dag var kaupandinn í salnum þegar uppboðið fór fram en yfirleitt fara viðskiptin fram í gegnum síma. 

Koons, sem er 64 ára gamall, gerði verkið árið 1986 en það er eitt þekktasta verk listamannsins. Kanínan var í eigu útgefandans S.I. Newhouse og var það dánarbú hans sem seldi verkið. Áður en hann lést árið 2017 tilheyrði útgáfufélagið Conde Nast meðal annars veldi hans en útgáfan gefur meðal annars út tímaritin Vogue, The New Yorker og Vanity Fair.

Alexander Rotter  sem stýrir nútímalistadeild Christie's, sagði í samtali við AFP-fréttastofuna eftir uppboðið að Kanínan væri mikilvægasta verk Koons og hann sagðist vilja ganga enn lengra - verkið væri mikilvægasti skúlptúr síðari hluta tuttugustu aldarinnar.

Jeff Koons.
Jeff Koons. AFP

„Þetta eru endalok skúlptúrsins. Þetta er andstæða Davíðs,“ sagði Rotter og vísaði þar til verks Michelangelo. „Þú kemst ekki lengra frá Davíð,“ sagði Rotter og á sama tíma verið fígúratívur og hefðbundinn skúlptúr.

Jeff Koons hefur verið áberandi í listaheiminum áratugum saman og muna margir eftir verkum hans, málverkum og skúlptúrum af honum og fyrrverandi eiginkonu hans, ítölsku klámmyndadrottningunni Cicciolina, að stunda kynlíf. 

Koons flutti til New York árið 1976 en árið 2015 störfuðu yfir 100 listamenn í stúdíói hans að verkum sem síðan eru í hans nafni. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert