Nauðgað og varð að eignast barnið

Aðgerðarsinni mótmælir lögunum fyrir utan þinghúsið í Alabama.
Aðgerðarsinni mótmælir lögunum fyrir utan þinghúsið í Alabama. AFP

Dina Zirlott segir að með nýsamþykktum lögum Alabama-ríkis um bann við þungunarrofi, jafnvel þótt konur hafi orðið ófrískar eftir nauðgun, sé komið fram við þær eins og útungunarvélar.

„Mér var sagt að ég væri ólétt eftir að mér var nauðgað og að það væri ekki hægt að taka það til baka. Mér leið eins og ég hefði verið misnotuð á nýjan leik,“ sagði hún við BBC.

Bætti hún því við að hún hefði verið látin ganga í gegnum eitthvað sem hún hafði enga stjórn á.

Barnið hennar kom í heiminn með fæðingargalla og ljóst var að það myndi ekki lifa lengi.

„Í hvert skipti sem ég hugsa um aðra konu sem verður að ganga í gegnum þetta verð ég sorgmædd fyrir hennar hönd alveg eins og ég hef sjálf syrgt.“

Zirlott bætti því við að lögin taki ekki með í reikninginn mismunandi aðstæður kvenna og líf þeirra þegar þær vilja gangast undir þungunarrof.

mbl.is