Umhverfismál á oddinn í Ástralíu

Ástralir ganga að kjörborðinu í dag en þar fara fram þingkosningar. Loftlagsmál brenna á allra vörum og talið er að landið verði það fyrsta í heiminum þar sem stefna í umhverfismálum muni ráða úrslitum.

Búist er við að á bilinu 16 til 17 milljónir landsmanna muni greiða atkvæði í dag, en búist er við að ástralski Verkamannaflokkurinn, sem er mið-vinstriflokkur, muni standa uppi sem sigurvegari. Flokkurinn hefur setið í stjórnarandstöðu sl. sex ár. 

Bill Shorten, forsætisráðherra Ástralíu, greiddi sitt atkvæði í höfuðborginni Melbourne. Hann var bjartsýnn í samtali við fjölmiðla, og taldi að hann gæti myndað nýja meirihlutastjórn. 

„Í dag er dagur fólksins,“ sagði hann. „Hvort sem verið er að kaupa „lýðræðispylsu“, krakkarnir að fá sætabrauð eða kjósa.“

Hann sagði að ef Ástralir eru reiðubúnir að kjósa gegn glundroðanum og kjósi með aðgerðum í loftlagsmálum, þá verði flokkurinn reiðubúinn til að hefja störf strax í fyrramálið. 

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, og flokkur hans, Frjálslyndi flokkurinn, hefur ekki staðið vel að vígi í kosningabarátunni. Flokkurinn hefur aftur á móti verið að sækja í sig veðrið að undanförnu, en hann hefur notið stuðnings stærstu fjölmiðlasamsteypu landsins sem er í eigu Rupert Murdoch. Flokkurinn hefur sótt stuðning til eldri og efnaðri kjósenda sem eiga von á skattahækkunum komist Verkamannaflokkurinn til valda. 

Morrison greiddi atkvæði í úthverfi Sydney. Hann sagði að það væri brekka upp á við í baráttunni. „Ég lít ekki á stuðning fólks sem sjálfsagðan hlut,“ sagði hann við fréttamenn. 

„Ástralir vita mjög vel hvað við erum að segja varðandi það að halda efnahagslífinu sterku, hafa stjórn á fjármálaáætlun landsins og tryggja öryggi Ástrala,“ sagði hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert