Dansari Madonnu yfirheyrður í Tel Aviv

Matthías Tryggvi Haraldsson úr íslensku sveitinni Hatara segir íslenska ríkisútvarpinu …
Matthías Tryggvi Haraldsson úr íslensku sveitinni Hatara segir íslenska ríkisútvarpinu frá gjörningi sveitarinnar í gær. Norska ríkisútvarpið NRK sýndi viðtalið í sjónvarpsfréttatíma sínum í kvöld þar sem auk þess var greint frá því að einn dansara Madonnu hefði sætt yfirheyrslu eftir að hafa sýnt þjóðfána Palestínu. Ljósmynd/Skjáskot af vef NRK

Mona Berntsen, norskur dansari í atriði söngkonunnar Madonnu í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, sætti rúmlega einnar og hálfrar klukkustundar yfirheyrslu ísraelskra yfirvalda við brottför á flugvelli Tel Aviv í dag.

Berntsen bar þjóðfána Palestínu á baki sér og sýndi hann í dansatriði Madonnu í söngvakeppninni í gær. Sagði hún frá yfirheyrslunni á Instagram í dag og hafa norskir fjölmiðlar greint ítarlega frá atvikinu í dag og ekki síður því þegar íslenska sveitin Hatari skartaði palestínska fánanum við atkvæðagreiðsluna og hugsanlegum afleiðingum þess.

„Þetta voru býsna viðburðaríkir tímar eftir keppnina í gær,“ segir Berntsen á Instagram, „en ég hafði aldrei trúað því að haft yrði eftirlit með mér á þann hátt sem gert var.“

Þurfti að segja ævisöguna

Greinir Berntsen frá því að vegabréf hennar hafi verið tekið af henni og í hátt í tvær klukkustundir hafi hún þurft að gera grein fyrir nánast allri ævisögu sinni og gera því skil hvers vegna hún hefði komið til Ísraels.

„Allt þetta bara vegna þess að ég sýndi fána til að segja mína skoðun á yfirstandandi deilu [Ísraels og Palestínu],“ skrifar dansarinn.

Norska ríkisútvarpið NRK fjallaði ítarlega um það, framarlega í sjónvarpsfréttatíma sínum í kvöld, þegar íslenska sveitin Hatari flaggaði þjóðfána Palestínu við stigagjöf söngvakeppninnar í gærkvöldi.

Greindi NRK frá og birti myndskeið af í sjónvarpsfréttum sínum í kvöld þegar brúnaþungur öryggisvörður kom til að gera palestínska fánann upptækan hjá liðsmönnum Hatara. „Látið mig hafa palestínska fánann,“ heyrist vörðurinn segja í myndskeiðinu sem sveitin birti á Instagram. Segir NRK aðgerðir Hatara hugsanlega munu hafa afleiðingar en Jon Ola Sand, framkvæmdastjóri keppninnar, var ekki tilbúinn að tjá sig við norska ríkisútvarpið í dag.

NRK fékk hins vegar yfirlýsingu frá EBU, samtökum evrópskra sjónvarpsstöðva, þar sem samtökin tóku fram að Eurovision-keppnin væri ópólitískur viðburður og allur pólitískur áróður teldist skýrt brot á reglum keppninnar. „Borðarnir [fánarnir] voru fjarlægðir án tafar og stjórnin [samtaka evrópskra sjónvarpsstöðva] mun nú fara yfir það hverjar afleiðingar þessa verða,“ sagði í yfirlýsingunni.

VG

Aftenposten

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert