Sparkaði upp skáphurðinni

Andy Brennan hefur stigið stórt skref.
Andy Brennan hefur stigið stórt skref.

„Í gegnum allan minn feril í A-deildinni og í knattspyrnu hef ég aldrei þekkt, hitt eða talað við knattspyrnumann hér í Ástralíu sem hefur viðurkennt opinberlega að hann væri samkynhneigður. Á heimsvísu er það með ólíkindum hversu fáir knattspyrnumenn hafa komið út úr skápnum meðan á ferli þeirra hefur staðið.“

Þetta segir Andy Brennan, 26 ára gamall ástralskur knattspyrnumaður, í grein sem upphaflega birtist á vef áströlsku leikmannasamtakanna á dögunum og fjölmargir fjölmiðlar hafa tekið upp og vitnað til.

Árið 2019 ætti það ekki að vera neitt tiltökumál fyrir ungan mann að gangast opinberlega við kynhneigð sinni; nema þá helst ef hann leikur knattspyrnu. Af einhverjum ástæðum, eins og Brennan bendir á hér að ofan, eru karlkyns knattspyrnumenn „ekki samkynhneigðir“. Sem er auðvitað tölfræðilega fráleitt, þegar horft er til þess hvílíkur fjöldi leggur stund á íþróttina á heimsvísu. Þeir þora bara ekki út úr skápnum; væntanlega af ótta við að verða illa tekið.Einmitt þess vegna er Brennan að stíga hér risastórt skref. 

Í greininni viðurkennir Brennan að hann hafi lengi leyft sér að efast um kynhneigð sína, talið sér trú um að það væri bara vitleysa að hann væri samkynhneigður, sem hann hefði mögulega ekki gert starfaði hann við eitthvað annað en knattspyrnu. „Þegar ég var hjá Newcastle Jets [sem leikur í efstu deild í Ástralíu] vildi ég ekki gangast við kynhneigð minni. Á þeim tíma var ég alfarið með hugann við fótboltann og að standa mig eins vel og ég mögulega gat enda þótt ég glímdi á köflum við meiðsli. Ég lagði allt mitt í leikinn og ýtti öðru til hliðar,“ segir Brennan.

Vildi ekki lifa í lygi

Hann segir það hafa tekið tíma að átta sig á því að hann gæti ekki lifað í lygi; að hann vildi vera sáttur við sjálfan sig. „Á einhverjum tímapunkti verður maður að gera sér grein fyrir kenndum sínum og vera sá sem maður er. Þetta er undarleg tilfinning, en þegar allt kemur til alls er ég líklega sá sem er að fella múrinn hérna í Ástralíu. Það hljóta að vera fleiri samkynhneigðir knattspyrnumenn þarna úti.“

Brennan áréttar þó að hann sé ekki að taka skrefið fyrir neinn nema sjálfan sig; þetta sé það eina rétta. Eigi að síður er hann ekki í nokkrum vafa um að til séu menn sem hafi lifað með því sama og hann. „Ef þeir eru í íþróttum og geta ekki verið þeir sjálfir, hvort sem þeir eru atvinnu- eða áhugamenn, getur það verið mikil áskorun.“

Hann vonar að fordæmið skipti sköpum enda sé mikilvægt fyrir aðra sem eru í sömu stöðu og hann að geta horft til einhvers sem hafi stigið skrefið til fulls og komið út úr skápnum. „Hafandi sagt það þá er ég ekki að hvetja nokkurn mann til að koma út. Ég myndi vissulega fagna því en menn verða eigi að síður að gera það á sínum eigin forsendum. Ekkert ferðalag er eins. Gerðu það sem þú vilt, gerðu það sem þér líður vel með, vegna þess að það er ekkert sem heitir rétt eða röng leið. Líti fólk á mína sögu sem hvatningu, sem dæmi um það hvernig allt getur farið vel, og geri þó ekki væri nema einni manneskju grein fyrir tilfinningum sínum, getur það skipt höfuðmáli. Það er alltaf betra en að byrgja þetta inni eins lengi og ég gerði.“

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »