Eiffelturninn rýmdur vegna klifrara

Lögreglan hefur náð sambandi við manninn, en ekki fengið upplýsingar …
Lögreglan hefur náð sambandi við manninn, en ekki fengið upplýsingar um hvað honum gengur til. AFP

Eiffelturninn í París var rýmdur síðdegis eftir að sást til manns sem reyndi að klifra upp turninn. Svæðið undir turninum var einnig rýmt en turninn og nágrenni hans eru meðal vinsælustu viðkomustaða ferðamanna í borginni.

Reglum samkvæmt ber starfsmönnum Eiffelturnsins að loka fyrir umferð um turninn ef sést til fólks reyna að klifra upp hann. Lögregla og slökkvilið voru einnig kölluð á vettvang.

Fjöldi fólks fylgdist með þegar lögreglumenn reyndu að ná til klifrarans með aðstoð slökkviliðsmanna. Lögreglan hefur náð sambandi við manninn, en ekki fengið upplýsingar um hvað honum gengur til. Slökkviliðsmenn reyna nú að ná honum niður.

Staða líkt og þessi kemur upp nokkrum sinnum á ári. Í október 2017 hótaði ungur maður að hoppa fram af einum bjálkanum en lögreglu tókst að tala hann ofan af því. Árið 2012 komst Breti alla leið á topp turnsins, í 324 metra hæð, og hrapaði hann til bana á leiðinni niður.

Slökkviliðsmenn reyna að ná manninum niður.
Slökkviliðsmenn reyna að ná manninum niður. AFP


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert