Hafnar „þjóðarmorðs háðsglósum“ Trump

Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, segir Trump vera að láta …
Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, segir Trump vera að láta B-liðið hvetja sig áfram. AFP

Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, hafnar „þjóðarmorðs háðsglósum“ Donald Trumps Bandaríkjaforseta og varar hann við að ógna ekki Íran. BBC greinir frá.

Spenna milli Íran og Bandaríkjanna fer nú vaxandi og dró síst úr henni með Twitter-færslu Trumps á sunnudag. „Ef Íran vill berjast, þá munu það verða opinber endalok Írans,“ sagði Trump í færslunni.

Zarif hvatti Trump hins vegar til að skoða söguna. „Íranir hafa staðið hnarreistir í árþúsund, en á meðan hafa árásaraðilar þeirra allir horfið ... Prófaðu að sýna virðingu — það virkar!“ skrifaði hann.

Bandarísk stjórnvöld hafa fjölgað orustuskipum sínum og flugvélum á Persaflóa undanfarið.

Undanfarið hefur Trump þó reynt að draga úr vangaveltum um hættuna á hernaðarátökum við Íran. Þannig sagði Trump er bandarískir fjölmiðlar spurðu hann í síðustu viku hvort Bandaríkin væru á leið í stríð við Íran að hann vonaði að svo væri ekki. 

Twitter-færsla forsetans þykir hins vegar bera merki um breyttar áherslur, en hana birti hann nokkrum klukkustundum eftir að flugskeyti var skotið inn á hið vel varða græna svæði í Bagdad, höfuðborg Írak. Flugskeytið lenti á byggingu sem er  um 0,5 km frá bandaríska sendiráðinu voru flestir starfsmenn sendiráðsins í kjölfarið fluttir á brott. Segja bandarísk stjórnvöld það hafa verið gert vegna „alvarlegrar“ ógnar sem þau segja tengjast hersveitum í Írak sem njóti stuðnings Írana.

Zarif sagði hins vegar á Twitter í dag að Trump væri að láta „B-liðið“ hvetja sig áfram og vísaði hann þar til John Bolton, öryggisráðgjafa Bandaríkjanna, Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og  Mohammad bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu.

Trump „vonast til að ná fram því sem Alexander [mikla], Genghis [Khan ] og öllum öðrum árásaraðilum mistókst. Íranir hafa staðið hnarreistir í árþúsund á meðan árásaraðilar þeirra eru horfnir.,“ skrifaði Zarif. Efnahagshryðjuverk og þjóðarmorðs háðsglósur muni ekki verða endalok Írans.“

mbl.is