Kvaðst skyndilega mundu greiða lánin

Robert F. Smith er efnaðasti blökkumaður í Bandaríkjunum.
Robert F. Smith er efnaðasti blökkumaður í Bandaríkjunum. Skjáskot/Twitter

Útskriftarnemum í Morehouse College í Atlanta í Bandaríkjunum var komið skemmtilega á óvart á útskriftarathöfn sinni í gær þegar ræðumaður í pontu tilkynnti þeim að hann hygðist greiða niður námslánin þeirra.

„Fjölskyldan mín er að búa til sjóð til þess að þurrka út námslánin ykkar,“ sagði hann í ræðunni.

Maðurinn er ríkasti blökkumaðurinn í Bandaríkjunum. Hann heitir Robert F. Smith og hefur hagnast um fleiri milljarða dollara á fjárfestingum í tæknigeiranum vestanhafs.

Allir nemendur sem voru í þann mund að útskrifast úr Morehouse-háskóla eru dökkir á hörund. Ef ekki hefði komið til þessarar örlætislegu gjafar af hálfu Smith hefðu hinir nýútskrifuðu nemar líklega séð fram á áratugi af afborgunum af námslánum.

Robert F. Smith er númer 480 á lista Forbes yfir milljarðamæringa heimsins og er metinn á 4,4 milljarði Bandaríkjadala. Hann er kominn af menntuðu fólki aftur í ættir og segir í ræðu sinni að hann og hans fjölskylda vilji með þessu láta ámóta tækifæri og þau höfðu sjálf falla í skaut komandi kynslóða.

Hluta ræðu Smith má sjá í spilara BBC:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert