Mjólkurhristingi skvett á Farage

Farage á kosningafundi í grennd við London í gær. Í …
Farage á kosningafundi í grennd við London í gær. Í dag fékk hann óblíðar móttökur í Newcastle. AFP

Nigel Farage, leiðtogi Brexit-flokksins sem býður fram til Evrópuþingsins, fékk óblíðar móttökur skömmu eftir að hann kom til Newcastle á Norður-Englandi í dag.

Er hann gekk niður götur þar í borg, umkringdur fylgdarliði sínu og fjölmiðlafólki kom aðvífandi maður sem skvetti á hann mjólkurhristingi, sem breskir fjölmiðlar segja að hafi verið með banana- og saltkaramellubragði.

Farage var eðlilega mjög óhress með atvikið, útataður í mjólkurhristingi, og sagði að lífverðir hans hefðu átt að geta séð hvað maðurinn ætlaði sér að gera, en hann hafði staðið álengdar með opinn mjólkurhristing.

Mjólkurhristings-skvettarinn var snarlega handsamaður af lögreglumönnum, en samkvæmt frétt BBC um málið er hann 32 ára gamall.

Myndskeið frá The Independent af atvikinu má sjá hér að neðan.

Farage tjáði sig um atvikið á Twitter-síðu sinni og sagði að því miður væru sumir þeirra sem vildu að Bretland yrði áfram í Evrópusambandinu orðnir svo öfgafullir að það væri að verða ómögulegt að standa í kosningabaráttu.

Hann sagði að til þess að lýðræðið virkaði þyrftu þeir sem tapa að sætta sig við úrslitin og að það að stjórnmálamenn hefðu ekki sætt sig við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Brexit árið 2016 hefði valdið þessu.

Frétt Guardian um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert