Banna þátt sem sýnir samkynja hjónaband

Í þættinum ganga mauraætan Patrick og rottan Ratburn í hjónaband. …
Í þættinum ganga mauraætan Patrick og rottan Ratburn í hjónaband. Það þótti ekki við hæfi að mati ríkissjónvarpsstöðvarinnar APT í Alabama. Ljósmynd/Twitter

Ríkissjónvarpsstöð í Alabama hefur neitað að sýna þátt í teiknimyndaþáttaröðinni um mauraætuna Artúr þar sem hjónavígsla samkynja pars fer fram í þættinum.

Um er að ræða fyrsta þáttinn í 22. Þáttaröðinni um Artúr, en þættirnir eru ætlaðir börnum fjögurra til átta ára. Í þættinum gengur Hera Ratburn að eiga unnusta sinn, Patrick.

Í stað þess að frumsýna þáttinn sýndi sjónvarpsstöðin, APT, eldri þátt og fram kemur í tilkynningu að ekki komi til greina að sýna þáttinn. Mike McKenzie, dagskrárstjóri APT, segir að með því að sýna þáttinn myndi stöðin missa allt traust foreldra.

Höfundar þáttanna sendu sérstaka tilkynningu í apríl þar sem fram kemur að hjónaband samkynhneigðra kæmi fyrir í þættinum og þá tók APT ákvörðun um að taka þáttinn ekki í sýningu.

„Bjóst ekki við að þurfa að berjast fyrir hjónavígslu samkynhneigðra rotta“

Þættirnir um Artúr hafa verið sýndir frá 1996 og hefur ATP áður neitað að sýna þátt úr þáttaröðinni. Þar var árið 2005 í þætti þar sem kanínan Buster heimsótti vinkonu sína sem á tvær mömmur.

Margir hafa lofað framleiðendur þáttanna fyrir að sýna frá samkynja hjónabandi en viðbrögð áhorfenda við ákvörðun ATP hafa verið misjöfn. Forfallakennarinn Misty Souder segir að hún og dóttir hennar hafi orðið fyrir vonbrigðum með að þátturinn hafi ekki verið sýndur á stöðunni. „Ég bjóst ekki við að þurfa að berjast fyrir hjónavígslu samkynhneigðra rotta, en hér er ég í dag,“ segir hún.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert