Fannst með krabbamein eftir 17 ár

Josu Ternera er hér krabbameinsveikur leiddur í bíl af lögreglu …
Josu Ternera er hér krabbameinsveikur leiddur í bíl af lögreglu eftir að hafa verið dæmdur í gæsluvarðhald af rétti í Bonneville fimmtudagsmorgun. Síðan var hann fluttur til Parísar. AFP

Gamall leiðtogi basknesku aðskilnaðarhreyfingarinnar (ETA) var handtekinn í frönsku Ölpunum á fimmtudaginn var. Staðsetning hans hafði verið yfirvöldum ókunn um 17 ára skeið en hann fannst loks í smábænum Sallanches við rætur Mont Blanc. 

Þar sætti hann krabbameinsmeðferð undir dulnefninu Bruno Martí. Hann bjó í fjallakofa í nágrenninu og þóttist vera venesúelskur rithöfundur í leit að innblæstri í skóginum. Lögreglan komst á snoðir um hann eftir stutta orðsendingu frá ónefndum heimildarmanni: „Jeudi 16 mai hôpital“. Fimmtudagur, 16. maí, spítali. Ekki lá fyrir hvaða spítala þannig að beðið var við flesta spítala á svæðinu. Það bar árangur.

„Fyrir okkur var hann Bruno Martí, hann sagðist vera frá …
„Fyrir okkur var hann Bruno Martí, hann sagðist vera frá Venesúela og vera rithöfundur“ hefur El País eftir íbúa á svæðinu. Ternera valdi þennan afskekkta fjallakofa á svæði sem er varla byggt nema á meðan skíðatíminn varir í Ölpunum. AFP

Og sá sem var handsamaður var enginn rithöfundur og enginn Venesúelamaður, heldur var hann sá sami og hann hafði alltaf verið, José Antonio Urrutikoetxea Bengoetxea að skírnarnafni en best þekktur sem Josu Ternera, einn af leiðtogum ETA á meðan blóðugustu herferðir hryðjuverkasamtakanna stóðu yfir á 9. áratug síðustu aldar. 

Árið 2017 var Ternera dæmdur í fjarveru sinni í átta ára fangelsi en að vonum var ekki hægt að framfylgja þeirri refsingu, þar sem ekki lá fyrir hvar maðurinn var. Nú má gera ráð fyrir að svo verði.

Ábyrgur fyrir hrottalegum árásum

Að loks hafi verið haft upp á Ternera er sagður táknrænn sigur fyrir spænsk lögregluyfirvöld í áratugalangri baráttu þeirra gegn hryðjuverkasamtökunum. Ternera stýrði meðal annars einni alræmdustu hryðjuverkaárás þeirra árið 1987, þegar sprengd var upp íbúðablokk í Zaragoza þar sem fjölskyldur 40 lögreglumanna voru búsettar. Þar létust 11, þar af 6 börn.

Enn er barnanna minnst hvern 11. desember í Zaragoza en …
Enn er barnanna minnst hvern 11. desember í Zaragoza en þann dag árið 1987 sprengdi ETA sprengju í íbúðarhúsnæðinu. Það voru börn lögreglumanna sem létust í þessum árásum og var það ekki óvanalegt fyrir árásir ETA, sem oftar en ekki beindust að opinberum starfsmönnum spænska ríkisins, hvort sem það voru stjórnmálamenn eða lögreglumenn. Ljósmynd/Wikipedia

Sömuleiðis var hann við stjórnartaumana í þeirri árás samtakanna sem kostaði hvað flest mannslíf, nefnilega sprengjuárás í verslunarmiðstöðinni Hipercor í Barselóna árið 1987.

Hann stýrði fleiri árásum og hafði milligöngu um fjölda hryðjuverka en honum er þó talið til tekna að á lokaárum hreyfingarinnar var hann í fararbroddi fylkingar í friðarviðræðum hennar við spænska ríkið. Meðal annars var hann kosinn í bæjarstjórn í heimabæ sínum Miravalles um aldamótin 2000 en hefur verið á flótta frá því 2002.

Hryðjuverkasamtökin ETA, sem börðust fyrir frjálsu Baskalandi, stóðu fyrir árásum …
Hryðjuverkasamtökin ETA, sem börðust fyrir frjálsu Baskalandi, stóðu fyrir árásum sem leiddu yfir 800 manns til dauða á fjórum áratugum á Spáni og í Frakklandi. Josu Ternera komst til áhrifa í lok 8. áratugarins og var á meðal leiðtoga samtakanna á 9. áratugnum, þegar sumar verstu árásirnar voru framdar. AFP

Ternera sat inni í Frakklandi fyrir störf sín innan hreyfingarinnar árin 1990 þar til 1996. Í kringum aldamót fór hann að blanda sér í pólitík í Baskalandi og var kosinn á þing þeirra. Árið 2002 var hann hins vegar, á meðan hann gegndi pólitískum embættum, beðinn um að mæta fyrir rétti og gera grein fyrir þátttöku sinni í umræddum árásum í Zaragoza. Hann kaus að hlíta því ekki, heldur fara frekar á flótta.

Í baskneska þorpinu Miraballes fór fólk út á götu á …
Í baskneska þorpinu Miraballes fór fólk út á götu á föstudaginn með borða: „Við viljum frið og frelsi. Frelsið Josu og hina,“ segir á honum. Því er mótmælt að Ternera sé handtekinn á þeim forsendum að hann var forsprakki hreyfingarinnar í friðarviðræðunum við Spánarstjórn. AFP

Tók þátt í friðarviðræðum

Sem stjórnmálamaður hafði Ternera beitt sér fyrir viðræðum fyrir friðsamleg málalok ETA við spænska ríkið. Jafnvel á meðan hann var í útlegð tók hann þátt í viðræðum ETA við stjórnvöld. Árið 2013 ferðaðist hann þannig til Noregs til þess að ræða við aðra frammámenn í samtökunum og fulltrúa Mariano Rajoy, þásitjandi forsætisráðherra Spánar. Sú tiltekna tilraun bar ekki árangur.

Árið 2017 afvopnaðist ETA endanlega, sem þeir höfðu þó heitið því að gera árið 2011. Árið 2018 voru samtökin endanlega leyst upp. Á milli 1968 og 2010 höfðu 829 fallið fyrir hendi liðsmanna hryðjuverkasamtakanna. Fjölmargar baskneskar fjölskyldur klofnuðu í afstöðu sinni til þessara mála á sínum tíma, þar sem til dæmis unglingarnir skráðu sig í sveitir ETA til að berjast fyrir sjálfstæðu föðurlandi.

Enn eru ótal samtök á svæðinu sem hafa það að hlutverki að minnast fórnarlamba hryðjuverkanna, hlúa að þeim sem misstu ástvini sína og halda minningunni á lífi, um voðaverkin sem leiddu af þjóðernisöfgunum sem gætti á síðari hluta 20. aldar í Baskalandi. Og þeirra gætir enn, þó í breyttri mynd sé.

Myndin er frá því 2002. Í maímánuði í fyrra kom …
Myndin er frá því 2002. Í maímánuði í fyrra kom „lokayfirlýsing“ ETA út. Í henni voru endalok samtakanna staðfest. Josu Ternera tók til máls í þessari yfirlýsingu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert