Krefur Boeing um eins dags hagnað

Nadege Dubois-Seex ræðir við fjölmiðla í París í dag.
Nadege Dubois-Seex ræðir við fjölmiðla í París í dag. AFP

Frönsk kona hefur lögsótt flugvélaframleiðandann Boeing og krefst 276 milljóna dollara í skaðabætur eftir að þota Ethiopian Airlines hrapaði í mars með þeim afleiðingum að allir 157 um borð létust, þar á meðal eiginmaður konunnar.

Konan, Nadege Dubois-Seex, lagði kæruna fram í Chicago í Bandaríkjunum, þar sem höfuðstöðvar fyrirtækisins eru.

Brak úr farþegaþotu Ethiopian Airlines.
Brak úr farþegaþotu Ethiopian Airlines. AFP

„Þetta er harmleikur sem hefði getað verið hægt að koma í veg fyrir vegna þess að svipað atvik átti sér stað fimm mánuðum áður. Hvernig gátu þeir ekki tekið mark á þeirri viðvörun?“ sagði Dubois-Seex við fjölmiðlafólk í París í dag.

Hún vitnaði í slysið þegar önnur 737 Max-8-þota Boeing hrapaði í Indónesíu í október í fyrra, með þeim afleiðingum að 189 manns létust.

Britt-Marie Seex, móðir Jonathan Seex, við hliðina á myndi af …
Britt-Marie Seex, móðir Jonathan Seex, við hliðina á myndi af syni sínum sem lét lífið í mars. AFP

Dubois-Seex sagði að Boeing hefði bara hugsað um eigin hag og því hefði eiginmaður hennar, Jonathan Seex, faðir þriggja barna á aldrinum sjö til tíu ára, látist. Lögmaður Dubois-Seex sagði að framleiðandinn hefði sýnt af sér gáleysi.

„Boeing vissi af vandamálunum sem tengdust MCAS-stýribúnaðinum,“ sagði Normaan Husain, lögmaður konunnar. Fram hefur komið að búnaðurinn beindi nefi flugvéla niður, án þess að ástæða væri til þess.

Þegar lögmaðurinn var spurður að því hvernig komist væri að þeirri niðurstöðu að krefjast 276 milljóna dollara í skaðabætur var svarið einfalt; þetta er sú upphæðið sem Boeing hagnaðist um á einum degi í fyrra.

mbl.is