Fundu þrjár erfðaskrár heima hjá Arethu Franklin

Aretha Franklin.
Aretha Franklin. AFP

Þrjár handskrifaðar erfðaskrár hafa fundist á heimili tónlistarkonunnar Arethu Franklin, en hún lést í ágúst í fyrra eftir að hafa glímt við krabbamein í brisi. Ættingjar hennar sögðu þá að hún hefði ekki skilið eftir neina erfðaskrá.

Fram kemur á vef BBC, að skjölin hafi fundist á heimili hennar fyrr í þessum mánuði. Tvær erfðaskrár eru frá árinu 2010. Þær fundust inni í læstum skáp eftir að lykillinn að honum fannst.

Sú þriðja, sem er dagsett í mars 2014, lá falin undir púðum í stofu söngkonunnar. 

Lögmaðurinn David Bennett segir að sú erfðaskrá, sem var inni í minnisbók, virðist taka fram að allar eigur Franklin eigi að renna til fjölskyldu hennar. 

Aftur á móti kemur fram að það hafi reynst erfitt að skilja allt það sem var skrifað á blöðin. Strikað hafi verið yfir orð og setningar skrifaðar á spássíur. 

Bennett, sem var lögmaður Franklins í rúma fjóra áratugi, lagði erfðaskrárnar fram í gær. Hann sagði við dómara að hann væri ekki viss hvort þær væru löglegar samkvæmt gildandi lögum í Michigan-ríki.

Franklin átti fjóra syni og að sögn Bennet er búið að sýna þeim, eða lögmönnum þeirra, erfðaskrárnar. Ekkert liggur fyrir með samkomulag, en talsmaður bús Franklins segir að tveir þeirra hafi mótmælt erfðaskránum. Stefnt er að málflutningi í málinu 12. júní, að því er BBC greinir frá. 

mbl.is