„Tvíburahvirfilbylur“ gekk yfir Oklahoma

Á annan tug hvirfilbylja hafa gengið yfir Texas, Oklahoma og …
Á annan tug hvirfilbylja hafa gengið yfir Texas, Oklahoma og Kansas síðasta sólarhringinn. Ljósmynd/Twitter

Á annan tug hvirfilbylja hafa gengið yfir Texas, Oklahoma og Kansas síðasta sólarhringinn og í einu tilfellinu gengu tveir hvirfilbyljir yfir samtímis í Oklahoma.

Hvirfilbyljirnir hafa ekki valdið jafn miklum skaða og spár gerðu ráð fyrir, sem þykir mikil mildi. Engar tilkynningar hafa borist vegna slysa á fólki í kjölfar hvirfilbyljanna en eignatjón er mikið. Byljirnir fóru yfir með hvelli og sumum þeirra fylgdi haglél.

Coy Harmon, íbúi í Perry í Oklahoma, var miður sín þegar hann ræddi við fjölmiðla eftir að hvirfilbylur gekk yfir heimili hans. „Ég trúði ekki mínum eigin augum. Þegar ég fór hálftíma áður var allt á sínum stað. Þegar við komum til baka var allt saman gjörónýtt,“ sagði Harmon og heyra má vindhviðurnar í bakgrunni.

Hvirfilbyljir verða til við hringiður sem myndast í neðsta hluta gufuhvolfsins og myndast í óstöðugu lofti, þegar hlýtt loft er undir köldu lofti. Slíkar aðstæður eru á þessum slóðum þessa stundina og hafa hraðir vestanvindar myndað kjöraðstæður fyrir hvirfilbylina, auk kuldapolls sem ræður ríkjum í Mið- og Suðurríkjunum.

Hér má sjá myndskeið af „tvíburahvirfilbylnum“:

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert