Bandamenn Dutertes með yfirburðasigur

Rodrigo Duterte forseti Filippseyja. Bandamenn hans unnu stórsigur í síðustu …
Rodrigo Duterte forseti Filippseyja. Bandamenn hans unnu stórsigur í síðustu þingkosningum sem mun gera forsetanum auðveldara að koma sínum stefnumálum í gegn. AFP

Bandamenn Rodrigo Dutertes, forseta Filippseyja, unnu stórsigur í þingkosningum sem fram fóru í landinu í síðustu viku. Lokaúrslit kosninganna voru birt í dag og sýna að stuðningsmenn Dutertes eru nú í meirihluta í báðum þingdeildum. Segir AFP-fréttaveitan þau úrslit munu draga verulega úr aðhaldi við ýmis umdeildari stefnumál forsetans.

Eru úrslitin m.a. talin gera Duterte kleift að standa við þau heiti sín að taka upp dauðarefsingu á nýjan leik og endurskrifa stjórnarskrá landsins. Þrátt fyrir gagnrýni mannréttindasamtaka vegna fíkniefnastríðs Dutertes virðist hann njóta mikilla vinsælda meðal Filippseyinga.

„Þetta er skýrt merki um að hann hefur almenning með sér í því ferli að koma í gegn frumvörpum og framkvæmdum, sem áður komust hvergi,“ sagði stjórnmálafræðingurinn Ramon Casiple.

Eftir kosningarnar nú munu níu stuðningsmenn Dutertes og þrír stjórnmálamenn sem að nafninu til teljast óflokksbundnir taka þau 12 sæti öldungadeildinni sem kosið var um nú og er dóttir fyrrverandi einræðisherrans Ferdinand Marcosar einn nýju þingmannanna. Stjórnarandstaðan fékk engin sæti í öldungadeildinni og segir AFP einungis fjóra stjórnarandstöðuþingmenn nú vera þar eftir en öldungadeildin er mönnuð 24 þingmönnum.

Bandamenn Dutertes héldu þá meirihluta sínum í fulltrúadeild þingsins, en sú deild hefur þegar staðfest frumvarp forsetans um endurgerð stjórnarskrárinnar og endurupptöku dauðarefsingar.

BBC segir mörg umdeildari frumvarpa Dutertes hafa til þessa verið stöðvuð í öldungadeildinni, en eftir að nýju öldungadeildarþingmennirnir setjast á þing í júlí verði hins vegar mun auðveldara fyrir stjórnina að koma þeim í gegn.

mbl.is