Loftslagsvá kallar á styttri vinnuviku

Fólk á götu í London. Breska hugveitan Autonomy segir Breta …
Fólk á götu í London. Breska hugveitan Autonomy segir Breta þurfa að stytta vinnuvikuna niður í níu stundir takist ekki að draga úr koltvísýringi í andrúmslofti. AFP

Þörf er á að stytta vinnuvikuna allverulega eigi að takast að sigrast á loftslagsvánni. Segir breska hugveitan Autonomy að Bretar muni þurfa að stytta vinnuvikuna niður í níu stundir takist ekki að draga úr koltvísýringi í andrúmslofti.

Guardian fjallar um rannsókn Autonomy, sem segir Evrópubúa þurfa að draga verulega úr fjölda vinnustunda sinna eigi að takast að forðast hörmulegar afleiðingar hlýnunar, nema það takist að draga úr losun frá atvinnustarfsemi með verulega róttækum hætti.

Er það niðurstaða hugveitunnar að eigi að takast að koma í veg fyrir tveggja gráðu hlýnun jarðar að þá þurfi Bretar að draga það mikið úr vinnu að vinnuvikan fari niður í níu stundir og sambærilegs samdráttar sé þörf í bæði Þýskalandi og Svíþjóð.

Niðurstöðurnar byggja á tölum frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) og Sameinuðu þjóðunum varðandi losun gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði í löndunum þremur.  Segir Autonomy ríkin þrjú þó einnig þurfa að grípa til annarra aðkallandi aðgerða til að draga úr loftslagsvánni.

Will Stronge, forstjóri Autonomy, segir rannsóknina beina athygli að því að stytting vinnutíma sé nauðsynlegur hluti þess að taka á loftslagsvánni.

„Ætli samfélög sér að verða græn og sjálfbær þá þarf að grípa til margvíslegra aðgerða og stytting vinnuvikunnar er ein þeirra,“ sagði Stronge.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert